Gunnar Th. Kristjánsson, staðgengill skattrannsóknarstjóra, telur að fjölga mætti birtingum álagningarskráa hjá ríkisskattstjóra og hafa þær mánaðarlegar. Nú birtast þær árlega. Hann segir að hvernig sem á það sé litið felist fælingarmáttur í að birta skrárnar opinberlega. "Annars væri enginn tilgangur í birtingunni." Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Gunnar segir að fjöldi ábendinga berist embætti skattrannsóknarstjóra fyrstu dagana og vikurnar eftir að álagningarskrárnar eru birtar. Allur gangur sé þó á því hvort þær eigi við rök að styðjast. Steinþór Haraldsson, staðgengill ríkisskattstjóra, segir embættið ekki hafa skoðun á því hvort birta eigi upplýsingarnar og að hann hafi ekki forsendur til að meta hvort birting þeirra hafi fælingarmátt. "En auðvitað getur maður ímyndað sér það að fólk vilji ekki láta sjá einhvern núll tax á opinberum vettvangi."
Í Fréttablaðinu er einnig greint frá norskri rannsókn sem sýndi að skattskil þar í landi hafi batnað um þrjú prósent eftir að upplýsingar um skattgreiðslur einstaklinga urðu aðgengilegar á netinu árið 2001. Áður hafði birting þeirra verið með svipuðu sniði og hérlendis.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokks styður bann við birtingu
Deilur um aðgang almennings að álagningaskrám skattstjóra spretta upp árlega hérlendis. Á síðasta þingi lögðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Á. Andersen og Birgir Ármannsson, fram frumvarp um breytingar á lögum um tekjuskatt sem felur í sér að álagningarskrárnar verði ekki lengur lagðar fram. Sigríður sagði í samtali við RÚV í vikunni að hún telji "að almenningur ætti að verja tíma sínum í eitthvað skemmtilegra og þarfara en að hnýsast gegnum skráargatið til annarra manna“.
Frumvarp Sigríðar og Birgis náði ekki fram að ganga á síðasta þingi en hún segist ætla að leggja það aftur fram á haustþingi og að hún hafi stuðning þingflokks Sjálfstæðisflokks í málinu.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrum fjármálaráðherra, sagði í sömu fréttum RÚV að hann væri ósammála þessari nálgun. „Ég tel að það eigi ekkert að takmarka aðgengi að þeim. Þetta séu upplýsingar sem eðlilegt sé að séu opinberar. Það hafi mikið aðhaldsgildi og sé sjálfsagt að hægt sé að bera saman hópa," sagði Steingrímur.