Bitcoin er alls ekki nýr gjaldmiðill og hin svokallaða rafmynt eða aðrar líkar sýndareignir, sem til eru í a.m.k. 18.000 mismunandi útgáfum, eru alls ekki heldur peningar. Þessi fyrirbæri skal miklu frekar kalla áhættusama fjárfestingu í óljósri eign eða jafnvel eitthvað í líkingu við hollenska túlípana frá 17. öld, eins og franski seðlabankastjórinn Galhau sagði í ræðu fyrir fáeinum mánuðum.
Þetta skrifar doktor í fjármálum, Ásgeir Brynjar Torfason, í grein sem birtist í nýjastu Vísbendingu í síðustu viku.
Hann bendir á að þessar sýndareignir sem nú falla hratt í verði dragi skýrt fram þörfina fyrir örugga og almenna uppgjörseign sem hafi einnig orðið ljóst á 18. og 19. öld eftir að vandi myndaðist meðal banka sem gáfu þá út sínar eigin myntir. „Kjölfestan í hinni öruggu eign sem fæst við myndun seðlabankapeninganna er almannagæði sem að standa þarf vörð um. Þó vissulega geti ýmsir þættir hinna nýstárlegu fjármálagjörninga og sýndareigna, á borð við túlípana, falið í sér margvísleg líkindi við peninga, alveg eins og þegar kaupa mátti heila húsaröð fyrir einn lauk,“ skrifar hann.
Ásgeir Brynjar bendir á að hugtakið stigveldi sé mikilvægt þegar hugsað er um peningakerfið og að það sé erfitt fyrir marga að hugsa sér hvaða eign trónir á toppi þess þegar gull er ekki lengur sá fótur sem peningar byggja á. Innstæður í viðskiptabönkum séu ígildi peninga en í raun bara krafa á ekta peninga sem eru gefnir út af seðlabönkum og tróna hæst í stigveldinu.
„Þrátt fyrir að útgefnir seðlar séu á skuldahlið efnahagsreiknings seðlabanka, þá má ekki gleyma því að í samstæðu reikningsskila ríkisins þá standa allar eignir ríkisins þar að baki og geta orð forsætisráðherra dugað til að tryggja allar innstæður í bönkum upp í topp eins og frægt varð,“ skrifar hann.
Almennur aðgangur að rafrænum seðlabankapeningum mikið til umræðu
Ásgeir Brynjar segir jafnframt í greininni að stór hluti stórgreiðslumiðlunar eigi sér þegar stað í gegnum rafeyri seðlabankanna en almennur aðgangur að rafrænum seðlabankapeningum sé nú mikið til umræðu og skuli ekki rugla við Bitcoin. Til þess að fá íslenskt sjónarhorn geti verið áhugavert að horfa á pallborðsumræður í lok gagnlegs fundar KPMG á Íslandi um framtíð rafmynta sem fram fór í júní síðastliðnum.
„Ljóst er af umræðunni þar að sumir telja alls enga þörf á því að hið opinbera komi að því að byggja upp hið stafræna peningakerfi. Sé hin alþjóðlega umræða skoðuð er hins vegar sá skilningur nokkuð almennur að kjölfesta peningakerfa framtíðarinnar verður aðeins tryggð hjá seðlabönkum.
Það breytir því ekki að fjártæknifyrirtækjum og viðskiptabönkum verður falin aðkoma og tilteknir þættir í rekstri þeirra kerfa sem almannagæði peninganna byggjast á. Sérstaklega varðandi greiðslumiðlunarþáttinn (e. medium of exchange) en það hlutverk sem snýr að vörslu verðmætis (e. store of value) peninga verður að tryggja með opinberum rekstri og sameign okkar í seðlabanka. Þriðja grundvallarhlutverki peninga sem grunneiningu bókhaldsins (e. unit of account) verður ekki hægt að hreyfa við með nokkrum tækninýjungum,“ skrifar hann.
„Skapandi eyðilegging“
Ásgeir Brynjar bendir jafnframt á að ný tækni kosti oft bæði bólu og hrun til að skila sér til okkar. „„Skapandi eyðileggingu“ kallaði Schumpeter það í upphafi síðustu aldar, líkt og mannfræðingurinn og blaðamaðurinn Gillian Tett bendir á í góðri yfirlitsgrein um framtíð sýndareigna sem nýlega hafa verið kallaðar rafmyntir. Áhangendur sýndareignanna líta líklegast á verðfall og brotthvarf sumra stöðugleikamynta (e. stablecoin) sem skapandi eyðileggingu í anda Schumpeters. Aðrir sem lengi hafa verið í heimi sýndareigna eru vanir sveiflum og geta talið þetta verðfall fela í sér kauptækifæri.
Fallið á virði Bitcoin og annarra sýndareigna á bálkakeðjum hefur þó fallið töluvert í skuggann af öðrum samhliða en ótengdum krísum. Verð eða gengi sýndareignanna hefur hrunið um tvo þriðju hluta frá toppinum í nóvember síðastliðnum eða samtals úr 3T$ í um 1T$.“
Hann segir að ein afleiðing verðfalls Bitcoin og annarra fjármálagjörninga sé að þannig geti raunverulegt peningamagn minnkað. Það sama gerist einnig við aukna skattheimtu sem hafi þann jákvæða fylgifisk umfram rafmynt að halli ríkissjóða minnkar. Verðbólga sé vissulega stundum álitin ákveðin tegund skattheimtu en hún skili í raun ekki betri afkomu hins opinbera og leggist auk þess mjög ójafnt á þegna landsins. Þá sé ekki óvarlegt að ætla að skynsamlegt gæti verið að auka skattheimtu af breiðari stofni en hæstu tekjutíundinni einvörðungu.