Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins svarar því ekki hvort hann styður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem varaformann flokksins. „Mér finnst að ég eigi ekki að blanda mér í það,“ sagði Bjarni í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni.
Bjarni var spurður um landsfundinn sem er framundan hjá Sjálfstæðisflokknum. Hann sagðist ekki telja að það væri nein hefð fyrir því að formaður hlutaðist til um kjör varaformanns, en hann sagðist treysta Hönnu Birnu til góðra verka.
Þá sagðist Bjarni ekki eiga von á því að hann sjálfur fengi mótframboð á fundinum.
Bjarni var einnig spurður út í stöðu Sjálfstæðisflokksins, sem mælist minni í skoðanakönnunum en Píratar. „Ég hef sagt við okkar fólk að þetta er líklega dýpsta krísan sem við höfum verið í,“ sagði Bjarni. „En ég veit að við erum að gera góða hluti í landsmálunum [...] ég er sannfærður um að við munum bæta við okkur fylgi.“
Ungt fólk leitandi og Píratar með grunna hugmyndafræði
Hann sagði ungt fólk vera leitandi í stjórnmálum, þannig læsi hann í skoðanakannanir. Hann sagði að komin væri upp sú staða að menn megi ekki hafa skoðun á Pírötum án þess að vera sagðir vera hræddir við þá og að verjast þeim.
„Ég ætla bara að leyfa mér að hafa skoðun á Pírötum eins og öðrum flokkum. Mér finnst hugmyndafræðin grunn, mér finnst ekki skýrt hvað þeir eru að berjast fyrir.“ Hann sagði jafnframt að í þeim málum sem hann væri að fást við, í stórum efnahagsmálum, finndist honum Píratar skila auðu.
Borgarfulltrúum flokksins ekki að takast nógu vel upp
Bjarni var einnig spurður um stöðuna á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihluta í mörgum litlum sveitarfélögum en gengur ekki mjög vel í Reykjavík. Um borgarfulltrúana í Reykjavík sagði hann: „þeim er ekki að takast nægjanlega vel upp í augnablikinu.“ Hann sagðist samt styðja borgarstjórnarflokkinn og ætlaði ekki að bregða fyrir þau fæti.