„Það er að minnsta kosti alveg ljóst að það er gríðarlega mikil gjá á milli slíkra hugmynda og þess svigrúms sem er til staðar í hagkerfinu fyrir launahækkanir það er engin innistæða, ég segi það bara við þá sem ekki voru búnir að átta sig á því það er ekki hægt að hækka laun um hundrað prósent,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við RÚV í hádegisfréttum. Hann var spurður um orð sín á Alþingi í gær, þar sem hann sagði kröfur um vera 50 til 100 prósent launahækkanir. Það væri ekki tilefni til fundarboða og væru kröfur sem ekki væri hægt að ganga að.
Bjarni sagðist í viðtalinu við RÚV vilja ná niður vöxtum og fá alvöru grunn undir kjarabætur. Þá vilji hann gera betur við þá sem ekki hafi nóg milli handanna. Þegar hann var spurður að því hvað stjórnvöld geti gert núna sagði hann: „Að halda áfram að ræða saman, það eru samninganefndir að störfum, við skulum trúa því að það sé hægt að finna lausnir.“
Á þingi í gær var Bjarni spurður um stöðu kjaradeilnanna og stjórnvöld voru gagnrýnd fyrir framgöngu sína. Bjarni sagði þá að unnið væri „eftir þeirri hugmyndafræði að það sé einhvers virði að viðhalda stöðugleikanum sem náðst hefur, að það skipti heimilin og atvinnulífið máli að halda lágri verðbólgu í landinu, það skipti bara verulega miklu máli. Og við þurfum að halda þannig líka á spilunum í þessari kjaradeilu að menn geri ekki eitthvað á einu sviði sem valdi röskun á öðru, að menn velti bara ósættinu á undan sér.“
Hann sagði einnig að vel væri fylgst með því hvernig viðræðulotum í kjaradeilum vindi fram. Það væri hins vegar ekki hægt að gera neitt með launakröfur upp á 50 til 100 prósent.