Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sér fyrir sér að ríkið verði áfram aðaleigandi í Landsbankanum um langa framtíð. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.
Helgi spurði Bjarna um áform um að selja hlut ríkisins í Landsbankanum, en heimildir til sölu á hluta af hlut ríkisins hafa verið inni í fjárlögum undanfarinnar ár. Helgi spurði meðal annars hvort Bjarna væri alvara með því að rétt sé að hefja einkavæðingu Landsbankans á ný, og hvort Íslendingar hefðu ekki grætt meira á því undanfarin ár að eiga bankann í stað þess að selja hann. Hann spurði einnig hvort ekki hefðu verið gerðar allt of litlar breytingar á fjármálakerfinu frá hruni og hvort fjármálaumhverfið hér á landi væri ekki of óeðlilegt, meðal annars vegna fjármagnshafta, að ráðast í sölu á Landsbankanum.
Bjarni sagði að hann hefði aldrei lagt það til að ríkið drægi sig alveg út sem eiganda í Landsbankanum. Hann sæi fyrir sér að ríkið yrði áfram aðaleigandi í Landsbankanum um langa framtíð, en að allt að 30 prósent mætti selja, líkt og heimild hefði verið til lengi. Hann teldi það geta verið Íslendingum til hagsbóta að draga úr hlut ríkisins í bankanum og hægt væri að nýta söluandvirðið til að borga niður skuldir og létta á vaxtakostnaði ríkisins. „Það var enda alltaf hugmyndin frá því að endurreisn Landsbankans stóð fyrir dyrum að ríkið myndi draga úr eignahlut sínum.“ Þannig væri hægt að bæði borða kökuna og eiga hana. „Við verðum áfram berandi, ráðandi hluthafi.“
Hann sagði jafnframt að gríðarlegar breytingar í regluverki fjármálafyrirtækja og til dæmis væri Landsbankinn líklega best fjármagnaði bankinn í Evrópu með yfir 20 prósent eigið fé.
Helgi sagði þetta gríðarstóra ákvörðun að taka og það væri ótímabært að hefja slíkar aðgerðir.