Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á Alþingi í dag að meginmeinsemd þess ástands sem er á vinnumarkaði sé sú að hann sé allt of tvístraður. Vinnumarkaðurinn standi ekki með stjórnvöldum og efist um að stjórnvöld standi með honum. Það þurfi að endurbyggja traust milli stjórnvalda og vinnumarkaðar, endurskrifa algjörlega ramann utan um vinnumarkað á Íslandi og ná samkomulagi um hvernig eigi að skipta svigrúminu sem sé til staðar hverju sinni í efnahagslífinu. „Við erum enn og aftur í þeim sporum að reyna að taka út meira en innstæða er fyrir,“ sagði Bjarni í svari við óundirbúinni fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar, um stöðu efnahagsmála í dag.
Guðmundur spurði Bjarna hvort hann hefði áhyggjur af því að Ísland væri að sigla inn í stjórnlaust tímabil ofþenslu, of hárra vaxta og viðskiptahalla í ljósi þeirra kauphækkanna sem kjarasamningar munu leiða til og þeirra aðgerða sem stjórnvöld ætla að grípa til til að styðja við kjarasamninganna.
Bjarni sagði að fullt tilefni væri til að ræða efnahagsmálin í þessu samhengi. Það væri mjög jákvætt að Ísland væri að upplifa sitt lengsta hagvaxtarskeið seinni tíma en stóra spurningin væri hvernig okkur gengi í glímunni við verðbólguna.
Guðmundur sagðist þá sakna þess að ekki sé meiri áhersla á langtímahugsun í efnahagsmálum. „ Við sjáum mjög innihaldsrýrar þjóðhagsspár, samráðsvettvangar ýmsir hafa nánast verið lagðir af. Við erum með lög um opinber fjármál í vinnslu. Hvernig samrýmist sú nálgun á ríkisfjármálin sem við höfum séð undanfarna daga ákvæðum þeirra laga?“
Bjarni svaraði því til að meginmeinsemdin í dag væri sú að vinnumarkaður væri allt of tvístraður. „Hann stendur ekki með stjórnvöldum og efast um að stjórnvöld standi með honum. Við þurfum að endurbyggja traust í samskiptum stjórnvalda og vinnumarkaðar og það er ekki eitthvað sem hefur gerst á liðnu ári (Forseti hringir.) eða liðnum tveimur, fimm árum, það er miklu lengri saga, áratugalöng saga þar að baki. Það þarf að endurskrifa algjörlega rammann utan um vinnumarkaðinn á Íslandi (Forseti hringir.) og taka höndum saman um að verja lága verðbólgu, ná niður vöxtum (Forseti hringir.) og komast að samkomulagi um það hvernig við skiptum svigrúminu sem er til staðar hverju sinni. Við erum enn og aftur í þeim sporum að reyna að taka út meira en innstæða er fyrir.“