Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt forseta Alþingis og ríkisstjórnina harðlega vegna framgöngu þeirra í ESB-málinu það sem af er þingfundi á Alþingi í dag. Umræður hafa nú staðið í rúma klukkustund, en umræða um stöðu Alþingis, yfirlýsingu forseta og umræðu um hana er ekki enn hafin.
Þingmenn gagnrýndu í upphafi þingfundar að Einar K. Guðfinnsson forseti þingsins hefði ekki orðið við beiðni þeirra um að kalla saman þingfund strax á föstudaginn. Að því loknu tóku við óundirbúnar fyrirspurnir þar sem hver ráðherra sem var viðstaddur fékk eina spurningu um ESB-málið. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfisráðherra vörðu allir bréf utanríkisráðherra til Evrópusambandsins þess efnis að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu.
Þá voru ráðherrar spurðir um það hvort skilningur þeirra á því að þingsályktun sem samþykkt var á síðasta þingi hefði ekki lengur gildi ætti þá ekki við um fleiri þingsályktanir. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, minntist í því samhengi á þingsályktun um hvalveiðar og um sjálfstæði Palestínu, en fékk ekki svör.
Meirihlutinn ræður
Að loknum óundirbúnum fyrirspurnum átti að hefjast umræða um stöðu Alþingis, yfirlýsingu forseta og umræðu um hana. Þegar þetta er skrifað hefur hún ekki enn hafist, en búið er að ræða fundarstjórn forseta á ný í rúman hálftíma.
„Það er auðvitað mikið áhyggjuefni og alvarleg staða þegar heil ríkisstjórn verður uppvís að því að skilja ekki stjórnskipan landsins,“ sagði Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar. Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist vera Róberti ósammála. Ríkisstjórnin skildi stjórnskipan landsins en stæði bara algjörlega á sama um hana.
„Meirihlutinn ræður,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann svaraði gagnrýni stjórnarandstöðunnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lagði þá til að stjórnarandstaðan færi bara heim, þar sem fjármálaráðherra hefði gert það ljóst að meirihlutinn réði.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri rétt hjá Bjarna að meirihlutinn réði. Þess vegna ætti hann að standa við heiðskýr loforð sín og leyfa Íslendingum að kjósa um málið. „Það er meirihluti Íslendinga sem ræður en ekki meirihluti ráðherranna.“