Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það óheppilegt að enginn fulltrúi ríkisstjórnarinnar hafi verið viðstaddur samstöðugönguna sem fram fór í París í gær. Við því hafi hins vegar ekki verið komist. Þetta kom fram í viðtali ráðherrans við Ísland í dag á Stöð 2 fyrr í kvöld.
Hvorki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra né Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sáu sér fært um að taka þátt í göngunni. Samkvæmt tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins varð skammur fyrirvari, ferðatími til Parísar og dagskrá ráðherranna til þess að hvorugur þeirra gat farið. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvað það var í dagskrá ráðherranna sem kom í veg fyrir þátttöku þeirra. Þess í stað var Nína Björk Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi, fulltrúi Íslands í göngunni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins.
Yfir 40 þjóðarleiðtogar mættu í gönguna til að sýna samstöðu, meðal annars forsætisráðherrar allra hinna Norðurlandanna.
Ekki hægt að fullyrða um útgönguskatt
Bjarni fór um víðan völl í viðtalinu við Ísland í dag og ræddi meðal annars aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi losun fjármagnshafta. Hann sagði málið ekki komið á þann tímapunkt að hægt væri að fullyrða að svokallaður útgönguskattur yrði settur á. Þá leið ætti hins vegar að skoða mjög alvarlega. Bjarni sagði að unnið væri í málinu á hverjum degi. Lee Buchheit, ein helsti ráðgjafi stjórnvalda í þeirri vinnu, væri til að mynda að koma til landsins á morgun til að taka þátt í þeirri vinnu. „Við erum að auka snúninginn í þessum málum á næstu vikum," sagði Bjarni.
Hann sagði ennfremur að stórar undanþágur frá fjármagnshöftum, á borð við þá að hleypa lífeyrissjóðum út úr þeim til fjárfestinga, væru ólíklegar í fyrsta kasti. Líklega væri að draga úr höftum á minni gerninga fyrst.