Það hefði verið óráð að stilla bara upp stöðugleikaskatti sem leið fyrir kröfuhafa föllnu bankanna til að geta lokið slitum á búum þeirra. Með því að bjóða upp á stöðugleikaskilyrðin sem valkost hafi verið að sýna fram á að ekki væri einungis um tekjuöflunaraðgerð að ræða heldur væri undirliggjandi tilgangur ríkisins að losa um fjármagnshöft. Það mun skipta gríðarlega miklu máli að stíga varlega til jarðar við sölu á eignarhlutum í Landsbankanum, ganga úr skugga um að þar muni allir sitja við sama borð og tryggja dreifða eignaraðild. Þetta er meðal þess sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í viðtali við Kastljós í kvöld.
Óráð að leggja bara á stöðugleikaskatt
Bjarni ræddi þar nýjar vendingar við losun hafta, en í nótt var tilkynnt um að ríkið muni eignast Íslandsbanka að öllu leyti sem hluta af stöðugleikaframlagi slitabús Glitnis. Hann svaraði einnig gagnrýni um að íslenska ríkið væri að gefa slitabúunum afslátt með því að leggja ekki á þá stöðugleikaskatt upp á 39 prósent sem myndi skila fleirum krónum til ríkisins, eða allt að 850 milljörðum króna. Stöðugleikaframlögin munu skila lægri upphæð til ríkissjóðs.
Bjarni sagðist ekki líta á losun hafta sem tekjuöflunarleið heldur lausn á undirliggjandi vanda sem útheimti höftin. Hann efast um að það hafi getað komið til álita að vera eingöngu með skattaleiðina á borðinu. Það hefði verið óráð að gera það, að mati Bjarna. Með því að bjóða upp á stöðugleikaskilyrði sem valkost sýndi ríkið fram á að það væri ekki bara að sækja sér tekjur heldur leysa vanda. En þá þyrfti það líka að taka því þegar kröfuhafar slitabúanna reynast tilbúnir til að mæta skilyrðunum, sem Bjarni telur að þeir séu nú að gera.
Hann segir að hagsmuna þjóðarinnar hafi verið gætt í málinu. "Ég held að við séum hér með aðgerðir sem eru algert einsdæmi," sagði Bjarni. Aldrei áður hafi verið farið fram á afskriftir á eignum sem nema heilum fjárlögum ríkis. Umskiptin sem verða við losun hafta geti breytt aðstæðum Íslendinga mjög mikið til góðs. Aðspurður um hvenær Íslendingar geti búist við að höftum verði lyft segir Bjarni að það geti gerst eftir að útboð á aflandskrónum fer fram. Það útboð mun fara fram í kjölfar þess að slitum á búum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans lýkur.
Allir þurfa að sitja við sama borð
Íslenska ríkið hefur einu sinni einkavætt bankakerfi. Einkavæðingarferlið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir spillingu, ógagnsæi og ófagmennsku alla tíð síðan. Bankarnir sem ríkið seldi voru allir orðnir gjaldþrota örfáum árum eftir að þeir voru einkavæddir.
Sú einkavæðing hefur skilið eftir mikla tortryggni hjá íslenskum almenningi þegar kemur að sölu ríkiseigna og eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum. Nýleg mál sem upp hafa komið í íslensku viðskiptalífi, til dæmis sala á hlut í Simanum til valins hóps á mun lægra verði en öðrum bauðst í aðdraganda útboðs, hefur aukið mjög á þá tortryggni.
Í nótt var tilkynnt um að íslenska ríkið muni eignast Íslandsbanka að fullu sem hluta af stöðugleikagreiðslu slitabús Glitnis, gangi hún eftir. Auk þess á ríkið Landsbankann að mestu. Bjarni bendir á að saman séu þessir tveir bankar um fjórðungur af þjóðarframleiðslu og ljóst sé að ríkið geti ekki átt þá til lengdar. Þegar hefur verið tilkynnt að ríkið ætli sér að selja 30 prósent hlut í Landsbankanum á næsta ári. Bjarni sagði í Kastljósi að það þurfi að stíga hvert skrefi í bankasölunni af varfærni. Ferlið þurfi að vera opið og gagnsætt. Það skipti gríðarlega miklu máli að þar sitji allir við sama borð og að eignaraðild verði dreifð.