„Það eru effin tvö,“ sagði Inga Sæland í Silfrinu á RÚV í morgun um sigurvegara kosninganna í gær: Framsóknarflokks og hennar, flokks, Flokks fólksins. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, sagði flokk sinn hafa unnið „stór sigur“ og það hafi ríkisstjórnin einnig gert. „Enn og ný er Framsókn orðin leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum.“ Flokkurinn bætti við sig fimm þingmönnum og mun því mæta til leiks með þrettán þingmenn.
Flokkur fólksins fékk sex fulltrúa kjörna. Inga segir sér og sínum flokki oftsinnis hafa verið spáð feygð en að hún teldi að þau mál sem sett voru á oddinn hafi skilað sér í gegn. „Það hefur nánast ekki dottið af mér brosið frá því að ég sá fyrstu tölur í gærkvöldi.“
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut sama þingsætafjölda og í síðustu kosningum og er enn stærsti flokkur landsins. Fylgi hans í skoðanakönnunum var hins vegar líkt og reyndar margra annarra flokka ekki í takti við niðurstöðu kosninganna. „Við elskum að vinna þessar kannanir,“ sagði Bjarni Benediktsson í Silfrinu.
Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, er sá eini af ríkisstjórnarflokkunum sem tapar þingmönnum og fylgi milli kosninga. „Ef við horfum á stóru myndina er ríkisstjórnin að fá góða kosningu,“ sagði Katrín spurð út í þetta. Hún minnti svo á að þetta væri ríkisstjórn sem hún hefði leitt og að VG væri stærsti vinstri flokkurinn á Íslandi, þriðju kosningarnar í röð.
Egill Helgason, stjórnandi Silfursins sagði er hann beindi orðum sínum til Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar að vinstrið væri „algjörlega í henglum“.
Sitt hvoru megin við víglínuna
Logi sagði að hvað Samfylkinguna varðaði þá „virðist sem þessi heiði sem við erum að fara yfir sé aðeins torfærari en við reiknuðum með“. Hvað „vinstrið“ í heild varðaði sagði hann það vissulega mjög umhugsunarvert til lengri tíma litið ef félagshyggjuflokkarnir VG og Samfylking yrðu áfram sitt hvoru megin við „víglínuna“. Það væri „ekki gott“ að vera „sitt hvoru megin árinnar“.
Halldóra Mogensen, fulltrúi Pírata, sagði úrslit kosninganna vekja sig til umhugsunar. Sagði hún að mögulega lituðust þau af heimsfaraldrinum. „Geri það að verkum að fólk sé að teygja sig í eitthvað sem það þekkir.“ Stöðugleikinn sem Sjálfstæðisflokkurinn væri tíðrætt um væri hins vegar „stöðnun“ í hennar huga.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagðist vilja hafa séð fleiri atkvæði fara til síns flokks. „Vinstrið er svolítið að falla, við sjáum það.“ Hins vegar væri hin frjálslynda miðja, líkt og Viðreisn skilgreinir sig á, „aðeins að sækja í sig veðrið“.
Hvað varðar stjórnarmyndunarviðræður framundan sagði hún „ekkert óeðlilegt ef annar hvor að strákunum myndi segja: Heyrðu, kæru vinir. Nú ætla ég að verða forsætisráðherra“.
Inga Sæland taldi einsýnt að Sigurður Ingi myndi nú „rífa sverðið á loft og fara að skylmast við Katrínu um forsætisráðherrastólinn“.
Katrín sagði alla ríkisstjórnarflokkana hafa tekið það skýrt fram fyrir kosningar að þeir myndu ræða saman ef ríkisstjórnin héldi stuðningi sínum. „Og það hefur ekkert breyst í því.“
Bjarni sagði það „skemmtilegan samkvæmisleik“ að raða saman mögulegum ríkisstjórnum út frá niðurstöðum kosninganna. „En í raunheimum, í þeim veruleika sem við búum við núna, þá tekur maður því dálítið alvarlega þegar maður gefur það út í aðdraganda kosninga að þetta sé það sem maður muni gera. Fyrsta útspil. Ég ætla bara að standa við það. Ég ætla bara að standa við það að hefja samtalið við fólkið sem við höfum vaðið skafla með og farið í gegnum ólgusjó, heimsfaraldur og fleira, og kosningar sýna að við höfum áfram stuðning.“
Hann sagði hins vegar að samstarfið hafi oft verið erfitt og snúið. „Það er ekki allt sem fellur saman eins og flís við rass í stefnum flokkanna. Þess vegna er það ekki sjálfgefið mál að stjórnin sem kláraði sitt verk finni það sem allir geta sætt sig við til næstu fjögurra ára. En ég er bjartsýnismaður og sé mikil tækifæri í þessari stöðu.“
Gerir ekki kröfu um forsætisráðherrastólinn
Hann sagði það hafa gefist sér vel að „byrja að bakka aðeins“ og setja sjálfan sig ekki í fyrsta sæti og reyna að skoða heildarhagsmunina.
Þú munt ekki endilega gera kröfu um það að verða forsætisráðherra, spurði Egill.
„Ég er ekki að gera kröfu um það. Það er ekki mitt fyrsta útspil í samtalinu,“ svaraði Bjarni. „Auðvitað förum við fram á það að við sem erum með fjórðung allra atkvæða í landinu, að það endurspeglist með einhverjum hætti í áhrifum. En maður verður að reyna að vera lausnamiðaður.“
Sigurður Ingi sagði það „algjörlega kristalklárt“ í sínum huga að staðið yrði við það sem sagt var fyrir kosningar. Eðlilegt væri að flokkarnir þrír myndu byrja á að ræða saman. „Við lögðum áherslu í upphafi að framtíðin myndi ráðast á miðjunni“ og að unnið yrði að umbætum „án átaka og án byltinga“. Að hans mati hefðu þau sjónarmið orðið ofan á í kosningunum.
Egill spurði Sigurð hvort hann myndi segja við forsetann að eðlilegast væri að hann yrði forsætisráðherra. „Ég ætla að ítreka, mér finnst eðlilegast að við sem sitjum í ríkisstjórn sem heldur velli og bætir við sig, fáum tækifæri til að tala saman. Ég ætla að gleðjast í nokkra klukkutíma. Síðan myndum við örugglega eiga samtal. Ég kann númerið hjá bæði Bjarna og Katrínu.“
Nokkra hluti þurfi til svo ríkisstjórn virki. Að ná málefnalegu samkomulagi er eitt en einnig þurfi að vera „kemestrí“ á milli fólks – ríkja traust.
„Það er mjög mikið ákall eftir því, að þetta fólk sem hérna situr og þjóðin er búin að velja til að stýra þessari fallegu skútu okkar næstu fjögur árin, hlusti á alla þjóðina sína en ekki bara suma,“ sagði Inga Sæland. Heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið og fleira bíði bráðrar úrlausnar. „Ég bíð spennt eftir því að sjá þessa yndislegu ríkisstjórn taka utan um alla þjóðina sína og vinna verk sín og vanda.“