Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur ákveðið að hefja framhald sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins frá 20. janúar síðastliðnum. Ráðherrann sendi Bankasýslunni bréf um ákvörðunina í dag.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins í dag en ríkissjóður seldi 35 prósent hlut í bankanum síðastliðið sumar.
Ákvörðun ráðherra byggir á fyrirliggjandi greinargerð sem lögð var fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingi og felur í sér að bankinn skuli seldur í áföngum fyrir árslok 2023.
Bankasýslan telur að ófriður í Austur-Evrópu raski ekki meginforsendum söluáforma
Fram kemur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að umsagnir nefndanna liggi nú fyrir en meirihlutar þeirra beggja mæli með því að hafist verði handa við framhald sölu.
Þá telur Seðlabankinn að telja megi að jafnræði bjóðenda verði tryggt og er salan talin hafa takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð.
Framhald sölu verður háð því að markaðsaðstæður séu hagfelldar. Þrátt fyrir að ófriður í Austur-Evrópu hafi haft margháttuð áhrif á eigna- og fjármálamarkaði á heimsvísu telur Bankasýslan að það raski ekki meginforsendum söluáformanna að svo stöddu. Þannig hafi verð á hlutum í bankanum ekki verið hærra en það er um þessar mundir.
Ríkissjóður seldi 35 prósent hlut í bankanum í sumar fyrir 55,3 milljarða króna. Markaðsvirði þess hlutar er í dag 86,1 milljarðar króna. Hann hefur því hækkað um 30,8 milljarða króna á nokkrum mánuðum. Sú hækkun lendir hjá nýjum eigendum hlutarins.
Á móti fékk ríkið markaðsvirði á eign sína í bankanum, sem var skráður á markað samhliða sölunni í sumar. Nú er 65 prósent hlutur ríkissjóðs metinn á um 160 milljarða króna.
Mikill hagnaður í fyrra og stefnt á tugmilljarða útgreiðslur
Íslandsbanki hagnaðist um 23,7 milljarðar króna á árinu 2021. Arðsemi eigin fjár var 14,2 prósent og sem var vel yfir tíu prósent markmiði bankans. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 54,3 prósent í 46,2 prósent milli ára.
Eigið fé Íslandsbanka var 203,7 milljarðar króna um síðustu áramót og eiginfjárhlutfall bankans 25,3 prósent. Útlán til viðskiptavina Íslandsbanka jukust um 7,9 prósent á síðasta ári. Þá aukningu má að mestu rekja til aukinna umsvifa á húsnæðismarkaði. Vaxtamunur bankans var 2,4 prósent. Hreinar vaxtatekjur voru 34 milljarðar króna og hækkuðu um tvö prósent milli ára. Þóknanatekjur hækkuðu hins vegar um 22,1 prósent og voru samtals 12,9 milljarðar króna.
Á grundvelli þessarar afkomu var ákveðið að greiða hluthöfum sínum 11,9 milljarða króna í arð. Þar af fóru 65 prósent til stærsta einstaka eigandans, íslenska ríkisins, eða rúmlega 7,7 milljarðar króna. Þeir sem eiga 35 prósent hlut í bankanum fengu svo samanlagt tæpa 4,2 milljarða króna í arðgreiðslu. Auk þess stefnir stjórn bankans að því að greiða út 40 milljarða króna í umfram eigið fé á næstu 12-24 mánuðum. Sú vegferð hófst með því að aðalfundur bankans samþykkti í gær að hefja endurkaup á bréfum fyrir 15 milljarða króna á næstu mánuðum.