Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur beðið Bankasýslu ríkisins um að afhenda lista yfir þá sem fengu að kaupa 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka fyrir um tveimur vikum síðan og óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið upplýsi um hvort gögnin séu háð bankaleynd.
Að hans hálfu sé ekkert því til fyrirstöðu að listinn verði birtur. „Bara ef lög stæðu í vegi fyrir því. Ég er að vona að niðurstaðan verði sú að við getum bara birt þetta.“
Þetta kom fram á vef RÚV sem ræddi við Bjarna um málið í dag. Þar sagði ráðherrann að hann telji útilokað að aðrir en þeir sem teljast fagfjárfestar hafi fengið að kaupa.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þingi í gær að vandinn við söluferlið væri sá að það hafi ekki ríkt fullt gagnsæi um ferlið. „Hins vegar er það algerlega ljóst af minni hálfu að þegar ríkiseign á borð við Íslandsbanka er seld þá á að liggja fyrir hverjir keyptu. Það eru upplýsingar sem íslenskur almenningur á heimtingu á. Ef einhver tæknileg atriði valda því að Bankasýsla ríkisins telur sig ekki geta birt þær upplýsingar tel ég réttast að Alþingi geri viðeigandi breytingar á lagaumhverfi þannig að unnt sé að birta þær því að annað gengur ekki.“
Innlendir keyptu 85 prósent
Í kynningu sem Bankasýsla ríkisins hélt fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál á föstudag var farið yfir sölumeðferð eignarhluta í Íslandsbanka. Þá var alls 22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka var seldur fyrir 52,65 milljarða króna, með 2,25 milljarða króna afslætti frá markavirði bankans. Hluturinn var seldur með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi sem þýðir að hann salan fór fram í lokuðu útboði til valinna fjárfesta. Í ráðherranefndinni sitja Katrín, Bjarni og Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Fjöldi innlendra fjárfesta sem fékk að kaupa voru 190 talsins. Þar af fengu 23 lífeyrissjóðir að kaupa 37,1 prósent þess sem selt var á 19,5 milljarðar króna. Alls 140 íslenskir einkafjárfestar fengu að kaupa næst mest, alls 30,6 prósent af því sem var selt á 16,1 milljarð króna. Alls 13 verðbréfasjóðir fengu að kaupa fyrir 5,6 milljarða króna og „aðrir fjárfestar“ frá Íslandi fyrir 3,5 milljarða króna.
Alls 15 fjárfestar keyptu fyrir meira en einn milljarð króna og sex keyptu fyrir á bilinu 500 til 1.000 milljónir króna.
Tugir keyptu fyrir lágar fjárhæðir
Alls 24 þeirra sem tóku þátt fengu að kaupa hlut fyrir tíu milljónir króna eða minna, 35 keyptu fyrir tíu til 30 milljónir króna og 20 keyptu fyrir 30 til 50 milljónir króna. Því liggur fyrir 79 aðilar, rúmlega helmingur allra þátttakenda, keypti fyrir 50 milljónir króna eða minna.
Ef einkafjárfestarnir 140 hefðu keypt hlut sinn á markaðsvirði hefðu þeir þurft að greiða samtals 688 milljónum króna meira fyrir hann en þeir gerðu í útboðinu.
Í kynningu Bankasýslunnar var há hlutdeild einkafjárfesta rökstudd með því að áskriftir þeirra hefðu skertar á kostnað almennra fjárfesta í frumútboðinu á hlutum í Íslandsbanka, sem fór fram í fyrrasumar en þá seldi ríkið 35 prósent hlut í bankanum.