Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks, segir að það sé rangt hjá Gunnari Smára Egilssyni, formanni framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, að hann „vilji Sósíalistaflokkinn feigan“.
Þetta segir Bjarni í færslu á Facebook, þar sem hann bregst við þeim ummælum Gunnars Smára að með hugrenningum sínum um styrki til stjórnmálasamtaka, sem settar hafa verið fram í viðtölum að undanförnum, sé Bjarni ekki að leita að betri virkni lýðræðis með afstöðu sinni heldur að leita leiða til að ýkja völd Sjálfstæðisflokksins umfram fylgi flokksins og draga úr áhrifum kjósenda annara flokka.
„Það er rangt hjá Gunnari Smára Egilssyni að ég vilji Sósíalistaflokkinn feigan. Það er hins vegar ekki nýtt að Gunnar Smári geri mér upp skoðanir,“ skrifar ráðherra á Facebook og bætir því við að það sé „herbragð“ Gunnars Smára og „reyndar sósíalista víða um lönd“ að snúa út úr, iðulega til að draga athygli frá aðalatriði máls.
„Í þessu tilviki vill Gunnar Smári ekki ræða spurninguna sem ég velti upp, en hún er þessi: Er eðlilegt að stjórnmálaflokkur sem nær engum þingmanni inn á Alþingi í kosningum fái um 120 milljónir í stuðning frá skattgreiðendum?“ skrifar Bjarni og bætir því við að hann þyki honum einfaldlega of há fjárhæð.
Hann sjálfur vilji „auka frelsi flokkanna til að bjarga sér sjálfum, en draga úr opinberum stuðningi við þá alla.“
Bjarni grípur síðan, í færslu sinni á Facebook, til þekkts frasa frá Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, sem sagði eitt sinn eitthvað á þá leið að vandinn við sósíalista væri sá að á endanum klári þeir annarra manna fé.
Á Twitter deilir hann færslunni með þeim sömu orðum.
Vandinn við sósíalista er að á endanum klára þeir annarra manna fé. pic.twitter.com/pH7jD9qfmV
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) August 16, 2022
Framlögin hækkuð gríðarlega á síðasta kjörtímabili
Framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði voru hækkuð verulega í byrjun síðasta kjörtímabils. Tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka á því ári áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna. Einungis fulltrúar Flokks fólksins og Pírata skrifuðu ekki undir tillöguna.
Hún var sett fram sem sameiginlegt erindi sem bar yfirskriftina „Nauðsynleg hækkun opinberra framlaga til stjórnmálasamtaka“. Í því var farið fram á að framlög til stjórnmálaflokka verði „leiðrétt“.
Kjarninn greindi frá því í desember í fyrra að þeir níu stjórnmálaflokkar sem fengu nægjanlegt fylgi í síðustu þingkosningum til að fá úthlutað fjármunum úr ríkissjóði áttu samtals að fá 728,2 milljónir króna til að skipta á milli sín á þessu ári.
Það er sama upphæð og flokkarnir fengu samtals 2020 og sama upphæð og þeir fengu í fyrra. Til viðbótar við þær greiðslur er kostnaður vegna starfsmanna þingflokka greiddur af Alþingi.