„Mér finnst við vera með mjög verðmætt en um leið mjög brothætt tækifæri í höndunum til að viðhalda stöðugleika. Við erum með mjög lága verðbólgu, það er ágætis friður á vinnumarkaði, ríkisfjármál eru í jöfnuði og skuldalækkunarferlið hafið bæði hjá ríki og sveitarfélögum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra um það ástand sem nú ríkir í íslensku hagkerfi. „Það er dálítið skrýtin staða að vera í að hafa lengi talað fyrir því að örva hagkerfið og ýta hlutunum af stað, en upplifa það svo skyndilega að það séu uppi merki um að það sé best að hætta að ýta og fara jafnvel að toga til baka og halda aftur af hlutunum.“
Farið varlega í skattalækkanir
Spurður hvort það sé skynsamlegt að niðurgreiða húsnæðisskuldir með skattfé eða ráðast í skattalækkanir á þenslutíma segir Bjarni að stjórnvöld verði að gæta sín á því að styðja áfram við markmið um stöðugleika. „Skuldaaðgerðirnar koma til framkvæmda á fjórum árum. Það er hluti af aðgerðinni að dreifa áhrifunum yfir lengra tímabil. Séreignarsparnaðarleiðin er svo mótvægi við hana sem eykur sparnað.
Ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfstætt efnahagslegt vandamál að íslensk heimili séu ekki þátttakendur í hagkerfinu. Við erum með mjög hátt skuldsett heimili í landinu. Þetta eru mál sem stjórnvöld verða að láta til sín taka. Greiningar segja að það sé viss hætta á að þetta leiði til aukinnar einkaneyslu og vextir þyrftu þá að hækka. Og það skiptir máli hvernig við myndum tímasetja skattalækkunaraðgerðir. Ég er ekki með á prjónunum stórar skattalækkunaraðgerðir á næsta ári sem væru til þess fallnar að auka einkaneyslu. Við verðum að tímasetja slíkar aðgerðir mjög vel. Við erum að horfa á kerfisbreytingar á næsta ári, til dæmis með því að afnema vörugjöld og breyta virðisaukaskattskerfinu. Við þessar aðstæður þurfa stjórnvöld að gæta sín á því að styðja áfram við markmið um stöðugleika.“
Áhyggjur af byggingu nýs spítala
Bjarni tekur undir að margt í því ástandi sem nú ríkir minni á byrjun síðasta góðæristímabils. Hann segist ákveðinn í því að draga lærdóm af því sem þá gerðist. „Á því tímabili kom, ofan í skattalækkanir og virkjanaumsvif, sú breyting að alþjóðlegir fjármálamarkaðir voru að stækka og peningar urðu smám saman því næst ókeypis. Það var ekki góður kokkteill inn í það ástand sem var á Íslandi á þeim tíma.
En varðandi framkvæmdir hins opinbera finnst mér það ekki vera rétta nálgunin við þessar aðstæður að byggja leiguíbúðir fyrir eigin reikning [eins og Samfylkingin hefur lofað í Reykjavík]. Borgin ætti frekar að tryggja lóðaframboð fyrir áhugasama.
Það er full ástæða til að gæta að sér í fjárfestingu hins opinbera en það er hins vegar staðreynd að hún hefur verið gríðarlega lág undanfarin ár. Við verðum að gæta okkur á því að hún verði ekki í kjallaranum of lengi vegna þess að hún mun þá elta okkur uppi í framtíðinni.“
En munu framkvæmdir við nýjan Landsspítala hefjast á þessu kjörtímabili? „Það verður að halda áfram að vinna að því máli vegna þess að þjóðin þarf að eiga öflugan landspítala. Ástæða þess að hann er ekki kominn lengra upp úr jörðinni er að það hefur ekki verið til fjármagn. Það er hægt að koma slíkri stórframkvæmd fyrir á næstu árum en annað mun þá þurfa að víkja í einhverjum mæli. Þá munu menn gera minna í öðrum verkefnum á borð við mannvirkjagerð og stórar samgönguúrbætur. Það er ekki hægt að tímasetja allt á sama tímabili ef við erum að upplifa mikinn uppgang og fjárfestingu í einkageiranum á sama tíma, líkt og við erum að gera núna. Það þarf að meta það hvort spítalinn rúmist á þessu tímabili. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því.“
Viðtalið við Bjarna Benediktsson er hluti af ítarlegri umfjöllun Kjarnans um ofþenslu í íslensku efnahagslífi. Hægt er að lesa hana í heild sinni hér.