Tímaritið Forbes birtir ítarlegt viðtal við athafnamanninn Björgólf Thor Björgólfsson á vefsíðu sinni í dag. Þar segir Björgólfur Thor meðal annars frá því þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hringdi í sig föstudaginn 3. október árið 2008, skömmu fyrir bankahrunið, og bað hann um að koma til Íslands. Á þessum tíma hafði Glitnir verið tekinn yfir og Landsbankinn riðaði til falls.
Í viðtalinu er rifjað upp lífstíll Björgólfs Thors fyrir efnahagshrunið, hvernig hann flaug mönnum á borð við Mikhail Gorbatsjov til Íslands í Challenger 600 einkaþotunni sinni og hélt 120 manna fertugsafmælið sitt á Jamaíku þar sem meðal annarra Ziggy Marley og 50 cent léku fyrir dansi.
„Mér leið svo illa út af þessu öllu saman“
„Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að skríða undir stein og bíða eftir að storminum lægði. Mér leið svo illa út af þessu öllu saman,“ er haft eftir Björgólfi í viðtalinu þegar hann rifjar upp reiðina sem ríkti í garð bankamanna á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins, þar sem meðal annars voru unnin skemmdarverk á íbúðarhúsi hans og Hummer-jeppa.
Félög Björgólfs skulduðu tíu milljarða Bandaríkjadala við bankahrunið, þar af var hann í persónulegum ábyrgðum fyrir um einn milljarð dala, að því er fram kemur í grein Forbes. Eigur Björgólfs sem höfðu áður verið metnar á 3,5 milljarða dala, féllu niður fyrir núllið.
Brjáluð endurkoma
Grein Forbes ber fyrirsögnina: „Brjáluð endurkoma: nær gjaldþrota en nú eini milljarðamæringur Íslands.“ Eins og fyrirsögnin gefur til kynna er endurkoma Björgólfs Thors í viðskiptalífið til umfjöllunar sem og bók hans um sjálfan sig Billions to Bust - and Back sem höfundur greinarinnar í Forbes segir að sé ótrúlega hégómafull tilraun til að stýra umræðunni, en beri engu að síður nafn með rentu. Til marks um það hafi Björgólfi nú tekist að endurheimta sæti á Forbes listanum, en eignir hans í dag eru metnar á 1,3 milljarða Bandaríkjadali, eða 173 milljarða íslenskra króna.
Í greininni er farið yfir fjölskyldutengsl Björgólfs Thors og fjallað um gosverksmiðjuævintýri Björgólfsfeðganna í Rússlandi og uppgang þeirra á Íslandi með kaupum þeirra á Landsbankanum og síðar kaup Björgólfs Thors á lyfjafyrirtækinu Actavis.
Þegar mest gekk á í kjölfar efnahagshrunsins, og lánadrottnar og lögmenn herjuðu á Björgólf, bjó hann í íbúð í Notting Hill í Lundúnum og hafði aðgang að reiðufé. Hann segir að há skuldastaða Actavis hafi ef til bjargað því að ekki fór verr. „Lánadrottnarnir voru auðvitað ekki ánægðir, og þeir kölluðu mig á fundi og öskruðu á mig. En þeir þurftu að vinna með mér. Annað hvort komumst við í sameiningu út úr þessu, eða engin kemst út,“ segir Björgfólfur Thor í samtali við Forbes.
„Ég gæti gert þetta allt aftur“
Þá er sagt frá frekari samskiptum Björgólfs Thors við lánadrottna, og hvernig hann gleymdi að hann ætti Ferrari bifreið og íbúð í Pétursborg þegar verið var að upplista eigur hans. Þá kveðst Björgólfur Thor hafa lært af reynslunni. „Eins og dýr sem lærir í frumskóginum, þá er ég í alvörunni að reyna að læra eitthvað af þessu,“ segir Björgólfur Thor. Hann segir að hann muni framvegis halda sig við fjárfestingar í geirum sem honum eru kunnugir, svo sem í fjarskipta- og lyfjageiranum, og þá í samstarfi við aðra fjárfesta.
„Ég er enn ungur. Ég gæti gert þetta allt aftur. Ég gæti grætt milljarð, tapað honum og samt haft tíma til að græða annan,“ segir Björgólfur Thor að lokum í umfjöllun Forbes.