Boeing 747 þota frá Ísrael fór til Nepals og til baka í gær til að bjarga þaðan ísraelskum ferðamönnum. Meðal 229 farþega um borð voru 15 ísraelsk ungabörn, sem öll fæddust staðgöngumæðrum í Nepal á síðustu sex vikum.
Sum barnanna voru í för með ísraelskum foreldrum sínum og önnur komu í fylgd annarra farþega. Staðgöngumæðurnar voru hins vegar skildar eftir í Nepal. TIME greinir frá þessu.
Ísraelar hafa bjargað 26 börnum sem fæddust með hjálp staðgöngumæðra frá því að gríðarlega sterkur jarðskjálfti reið yfir Nepal á laugardaginn. Óttast er að tíu þúsund manns hafi látist og eyðilegging í landinu er gríðarleg.
Málið hefur vakið athygli á alþjóðlegri staðgöngumæðrun sem og þessum lítt þekktu tengslum milli ríkjanna tveggja, að Ísraelar nota í talsverðum mæli nepalskar konur til þess að eignast börn. Staðgöngumæðrun er heimil í Ísrael en aðeins gagnkynhneigð pör eiga auðvelt með að nota staðgöngumæður þar í landi. Einstæðir foreldrar og samkynhneigð pör fara því í talsverðum mæli til útlanda til þess að eignast börn með staðgöngumæðrum. Margir fóru til Indlands en eftir að lögum þar var breytt árið 2013 var samkynhneigðum og pörum sem hafa verið gift í innan við tvö ár bannað að kaupa staðgöngumóður. Margir Ísraelar voru á þeim tíma í miðju ferlinu og indversku mæðurnar voru látnar ferðast til Nepal til að fæða börnin. Þeir sem komu í kjölfarið réðu svo nepalskar staðgöngumæður.
Um hundrað konur frá Nepal og Indlandi ganga nú með börn fyrir ísraelska foreldra. Ríkissaksóknari hefur sagt að þær konur sem eru komnar hvað lengst á leið fái líklega að koma til Ísrael til að fæða börn sín, og fráfarandi innanríkisráðherrann segir að hinum verði gert auðveldara að flytja til Ísrael. Það að bjarga börnunum var forgangsatriði ísraelskra stjórnvalda ásamt því að senda björgunarteymi og setja upp tímabundinn spítala. Nú segja stjórnvöld að komið sé að því að skoða leiðir til að bjarga staðgöngumæðrunum.
Málið hefur vakið mikla athygli í Ísrael og hefur talsvert verið gagnrýnt. Í skoðanagrein í Haaretz eru stjórnvöld sökuð um að sýna valkvæða samúð með því að hjálpa aðeins börnunum en ekki konunum sem gengu með þau. „Hvernig má það vera að engin þessara mannlegu frétta minnist á þessar konur, sem koma úr erfiðum félagslegum aðstæðum...að leigja út leg þeirra...og eru núna, rétt eins og börnin sem þær voru að eignast, eru fastar á hamfarasvæðinu?“ skrifaði Alon-Lee Green í grein sinni. Viðhorfið gagnvart staðgöngumæðrunum sé lýsandi fyrir einmitt það sem sé vandamálið við staðgöngumæðrun, að konurnar séu markaðsvara.
Hann segist styðja réttindabaráttu hinsegin samfélagsins, sem hann tilheyri. Hinsegin fólk eigi að geta stofnað fjölskyldur í Ísrael. Hann styðji réttinn til þess að ala upp börn og að ríkið viðurkenni fjölskyldur hinsegin fólks. „En mér finnst ekki að þessi réttindi eigi að koma á kostnað annarra manneskja. Vegna þess að þá fer okkar barátta úr því að vera sú réttlátasta í heiminum í það að vera barátta sem skapar annað óréttlæti. Og mér finnst vega nógu mikið óréttlæti í heiminum eins og hann er.“