Björgunarsveitin Dalvík fylgdi sjúkrabifreið með barnshafandi konu til Akureyrar frá Dalvík á fjórða tímanum í nótt. Konunni var komið á sjúkrahúsið á Akureyri um klukkan hálf sjö í morgun. Á Egilsstöðum og í Hnífsdal var heilbrigðisstarfsfólk aðstoðað við að komast í og úr vinnu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Slysavarnafélagið Landsbjörg sendi fjölmiðlum nú rétt í þessu.
Mikið óveður gengur nú yfir Norðurland og Austfirði og eru flestir vegir þar ófærir, ekkert ferðaveður er á þessum svæðum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Nú geysar norðan stormur og hríð eru um norðaustanvert landið og á Austfjörðum. Á Suðausturlandi er búist við norðvestan 28 til 32 metrum á sekúndu og hættulegum vindhviðum, allt að sextíu metrum á sekúndu.
Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til að aðstoða ökumenn við Siglufjörð, í Námaskarði, í Mikladal við Tálknafjörð, á Steingrímsfjarðarheiði, við Fnjóskadal, á Skagastrandarvegi, við Hvammstanga, norðan við Blönduós, við Reynisfjall, við Hnausa, á Kleifarheiði, og í Víkurskarði. Þá fór björgunarsveitin á Hellu í nótt að sækja hóp ferðafólks í Landmannalaugar. Hópurinn var vel búinn, en snjóbíl þurfti til að sækja hann.
Viðvörum frá Veðurstofunni:
Útlit fyrir norðan illviðri á öllu landinu í dag, sunnudag, og ekkert ferðaveður. Fer að draga úr vindi vestast á landinu seinnipartinn. Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að búast megi við vindhviðum allt að 60 m/s undir Vatnajökli og á Austfjörðum ásamt ofankomu og skafrenningi.
Hægt er að fylgjast með lægðinni, sem nú gengur yfir land, í „beinni“ hér.