Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur, sem er með aðstöðu við Flugvallarveg í Vatnsmýri, hefur um lengri tíma haft afnot af bílastæðum á landi Reykjavíkurborgar vestan við húsnæði sveitarinnar, en það mun senn breytast.
Fulltrúar meirihlutans í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar samþykktu í síðustu viku breytingar á deiliskipulagi, sem fela í sér að einn mest notaði göngu- og hjólastígur borgarinnar verði færður inn á svæði sem notað hefur verið sem bílastæði sveitarinnar með þeim afleiðingum að sveitin tapi ⅔ af því plássi sem hún í dag hefur undir ökutæki.
Flugbjörgunarsveitin er ekki sátt með þetta, furðaði sig á samráðsleysi áður en tillagan var lögð fram í sumar og gerði kröfu í umsögn sinni um að skipulagstillagan yrði dregin til baka eða þá breytt á þann veg að stígurinn yrði sveigður ögn, þannig að enn yrði hægt að nýta svæðið undir bílastæði.
Það var hins vegar ekki möguleiki, samkvæmt því sem fram kemur í svari skipulagsfulltrúa borgarinnar, þar sem þá hefði stígurinn færst inn á lóð við horn Flugvallarvegar og Nauthólsvegar.
Þar stendur til að byggja húsnæði, en afmörkuð hefur verið lóð á horninu innan skipulagssvæðis háskólagarða HR. Það var raunar gert árið 2017 og því hefur legið ljóst fyrir í mörg ár að þennan stíg þyrfti að færa á einhverjum tímapunkti.
Samningi borgarinnar og Flugbjörgunarsveitarinnar um afnot af svæðinu undir bílastæði var sagt upp af hálfu borgarinnar árið 2019, gegn mótbárum Flugbjörgunarsveitarinnar, sem þó hefur áfram nýtt svæðið undir bílastæði síðan þá og mun fyrirsjáanlega geta gert það um einhvern tíma til viðbótar, eða þar til framkvæmdir við færslu stígsins hefjast.
Telja hætt við að félagsmenn hætti að mæta í útköll ef þeir geti hvergi lagt
Flugbjörgunarsveitin sagði í umsögn sinni að félagar sveitarinnar ferðuðust oftast í einkabílum að húsnæði og að með ónógum bílastæðum væri hætt við að félagsmenn hættu við að mæta í fjölmenn útköll og æfingar.
Nefndi sveitin að erfitt væri að notast við aðrar samgöngur en einkabílinn þar sem útköll kæmu á öllum tímum sólarhrings og gætu staðið lengi yfir. Þá kæmi fólk í útköll frá vinnu, heimili, skóla eða tómstundum og útköll kæmu oft þegar veður væru það slæm að almenningssamgöngur væru lokaðar.
Meirihlutinn sagði nauðsynlegt að eiga gott samráð við sveitina
Auk þess að krefjast afturköllunar tillögunar, eða sveigju á fyrirhugaðan stíg, lagði Flugbjörgunarsveitin einnig til að sveitin fengi afnot af lóð innan þess svæðis þar sem bílaleigan Hertz er með stöðuleyfi fyrir starfsemi sína við Flugvallarveg. Segir sveitin að rekstur bílaleigu falli illa að tilgangi svæðisins samkvæmt aðalskipulagi borgarinnar.
Hvort sá kostur verði tekinn til skoðunar skal ósagt látið, en í bókun á fundi umhverfis- og skipulagsráðs sagði meirihlutinn að nauðsynlegt væri að eiga „gott samráð við Flugbjörgunarsveitina um aðstöðumál fyrir þessa mikilvægu og nauðsynlegu starfsemi“.
Sjálfstæðismenn vildu fresta málinu
Ekki voru allir á einu máli um ágæti þess að ráðast í skipulagsbreytingarnar, á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í síðustu viku. Marta Guðjónsdóttir og Kjartan Magnússon, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu, settu fram tillögu þess efnis að afgreiðslu málsins yrði frestað, en henni var hafnað.
Í sameiginlegri bókun Mörtu, Kjartans og Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, sagði að fulltrúarnir teldu mikilvægt að koma til móts við óskir Flugbjörgunarsveitarinnar um bílastæðamál.
„Flugbjörgunarsveitin gegnir mikilvægu hlutverki í þágu almannaheilla og eðli starfseminnar felur það í sér að björgunarsveitafólk hafi aðgang að umræddri björgunarmiðstöð á öllum tímum sólarhringsins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að afgreiðslu málsins yrði frestað á meðan rætt væri við Flugbjörgunarsveitina um lausnir á bílastæðamálum hennar. Við hörmum að meirihlutinn hafi fellt slíka tillögu um frestun máls í því skyni að eiga eðlilegt samráð við aðila, sem á ríkra hagsmuna að gæta í málinu,“ sagði í bókun þeirra.
Kolbrún Baldursdóttir áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókaði einnig um málið. „Bílastæði hafa þegar verið skorin mikið niður. Varast ber að ganga of langt í þessu sem öðru. Gæta þarf meðalhófs. Er hægt að finna lausn sem allir geta sætt sig við? Þetta er vissulega gömul ákvörðun en þeim má breyta eins og nýjum. Best væri að fresta þess og eiga „samtal“. Vika eða vikur til eða frá skipta ekki sköpum í þessu máli,“ lét Kolbrún bóka.