Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar, hefur látið af störfum sem sveitarstjóri Ásahrepps í Rangárvallarsýslu, en hann var skipaður í starfið 14. júlí í fyrra.
Í frétt um starfslokin á vef Ásahrepps segir Egill Sigurðsson, oddviti sveitarstjórnar, að það séu vonbrigði að samstarfið hafi ekki orðið lengra. Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps, segir þetta hafi verið niðurstöðu beggja aðila. „Það eru vonbrigði að samstarfið hafi ekki orðið lengra, en það er sameiginleg niðurstaða okkar og Björgvins að því lyki nú,” segir Egill.
Björgvin hefur ákveðið að ráða sig til fjölmiðilsins Herðubreiðar, sem Karl Th. Birgisson hefur stýrt. Björgvin verður annar ritstjóri, við hlið Karls, að því er fram kemur í frétt Herðubreiðar í tilefni af ráðningu Björgvins.