Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir segir að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, hafi ekki gert neitt fyrir umhverfið í starfi sínu. Hún hafi viljað styðja við Katrínu sem forsætisráðherra en vonbrigði með framgöngu hennar í tengslum við viðburð þar sem til stóð að að Björk, Greta Thunberg og Katrín lýstu yfir neyðarástandi í loftslagsmálum hafi gert hana fokreiða. Sú reiði hafi síðan þróast yfir í gremju.
Þetta kemur fram í stóru viðtali við Björk í The Guardian í dag í tilefni þess að tíunda sólóplata hennar, Fossora, er að koma út. Þar ræðir hún meðal annars um móður sína, Hildi Rúnu Hauksdóttur, sem lést árið 2018, og umhverfisaktívisma hennar. Hann fólst meðal annars í því að fara í hungurverkfall árið 2002 til að mótmæla byggingu álvers Alcoa og Reyðarfirði og þeim umhverfisspjöllum sem fylgdu byggingu Kárahnjúkavirkjunnar, sem sér álverinu fyrir rafmagni.
Beitt sér á undanförnum árum
Í viðtalinu segir Björk að hún hafi alla tíð síðan þá eytt miklum tíma í að vekja athygli á eyðingu umhverfisins. Aktívismi hennar hefur átt sér nokkrar birtingarmyndir á því tímabili. Hún stóð til að mynda, ásamt leikstjóranum Darren Aronofsky, fyrir viðburði sem bar yfirskriftina „Stopp - gætum garðsins!“ árið 2014.
Í viðtali við Kjarnann í mars það ár sagði hún að dropinn sem fyllti mælinn fyrir henni væri þegar þáverandi umhverfisráðherra Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson, ákvað að fresta gildistöku náttúruverndarlaga sem höfðu verið mörg ár í gerjun.
Með alla kallakallana á bakinu
Björk rifjar upp við The Guardian að Cornucopia-tónleikaferðalag hennar árið 2019 hafi innihaldið myndbandsskilaboð frá loftlagsaðgerðarsinnanum Gretu Thunberg. Sama ár hafi Björk og Thunberg ákveðið að taka höndum saman við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, til að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Þær vonuðust til þess að það myndi leiða til opinberra viðbragða frá íslensku ríkisstjórninni. Þegar kom að því að gefa út yfirlýsingu um málið hafi Katrín hins vegar hætt við þátttöku. „Ég eiginlega treysti henni, kannski vegna þess að hún er kona, en svo fór hún og flutti ræðu og sagði ekkert. Hún minntist ekki einu sinna á þetta. Ég varð fokreið, þar sem ég hafði verið að skipuleggja þetta í marga mánuði,“ segir Björk við The Guardian.
Í kjölfarið hafi vonbrigði hennar þróast út í gremju, og jafnvel nokkurs konar aðgerðarsinna-kulnun.
Björk segir að henni hafi langað að styðja við Katrínu í hennar hlutverki. „Það er erfitt að vera kvenkyns forsætisráðherra. Hún er með alla kallakallana (e. rednecks) á bakinu. En hún hefur ekki gert neitt fyrir umhverfið.“