Stór hluti kaupverðsins sem Pressan ehf., sem er að mestu í eigu Björns Inga Hrafnssonar, greiddi fyrir um 70 prósent hlut í DV ehf. var fjármagnaður með láni frá seljendum hlutarins. Sá hópur er leiddur af Þorsteini Guðnasyni og tók yfir DV í haust eftir harðvítug átök við Reyni Traustason, fyrrum ritstjóra DV og minnihlutaeiganda, og hóp sem honum tengist. Átökin enduðu með að Þorsteinn og viðskiptafélagar hans tóku yfir DV og sögðu Reyni upp störfum.
Upplýsingar um seljendalánið komu fram í frétt á Eyjunni, sem er í eigu Pressunnar, í dag þar sem tilkynnt var að Samkeppniseftirlitið hafi heimilað samruna Pressunnar og DV að lokinni rannsókn. Það mun ekkert aðhafast frekar í þeim málum. Samkvæmt frétt Eyjunnar hefur samruninn ekki með sér í för röskun á samkeppni og því sé ekki þörf á íhlutun eftirlitsins í formi ógildingar eða með setningu skilyrða.
Pressan á vefmiðlanna Eyjan.is, Pressan.is og Bleikt.is. Við samrunan bætist blaðið DV og vefurinn DV.is í safnið.
Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður og útgefandi DV og Pressunnar.
Nýir hluthafar koma inn
Í frétt Eyjunnar er haft eftir Birni Inga að nýir hluthafar muni koma inn í Pressuna í tengslum við kaupin auk þess sem stór hluti kaupverðsins sé fjármagnaður með láni frá seljendum. Tilkynnt verður um hvernig eignarhald félagsins sé háttað fyrir áramót.
Kjarninn greindi frá því á miðvikudag að ný stjórn DV hefði verið kjörin á hluthafafundi sem haldinn var á skrifstofu miðilsins í þann dag. Björn Ingi Hrafnsson tók þá við sem stjórnarformaður félagsins. Auk hans voru Arnar Ægisson, framkvæmdastjóri Vefpressunnar, og lögmaðurinn Sigurvin Ólafsson kjörnir í þriggja manna stjórn. Varamaður í stjórn verður Jakob Hrafnsson, bróðir Björns Inga.