Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á þingi í dag fyrir seinagang í mati á kostum og göllum á lagningu sæstrengs. Eitt og hálft ár væri liðið frá því að atvinnuveganefnd þingsins beindi því til ráðherrans með einróma nefndaráliti að klára þessa vinnu. „Skilaboðin voru mjög skýr. Við sögðum: Komdu með þær upplýsingar sem upp á vantar, láttu gera þær hagkvæmni- og umhverfisathuganir sem upp á vantar, farðu í viðræður um fyrirkomulag og verð við bresk stjórnvöld svo þú getir tekið ákvörðun um það hvort verkefnið er málið eða ekki,“ sagði Björt.
Nú væri hins vegar komið að lokum vorþings 2015 og því eitt og hálft ár liðið. „Í venjulegum fyrirtækjum undir stjórn styrkrar forystu myndi svona eftirvinna sem var eftir taka 6–9 mánuði, en enn er engin niðurstaða komin frá hæstvirtum ráðherra. Af hverju ætli það sé?“ spurði Björt í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins, sem þýðir að Ragnheiður Elín gat ekki svarað spurningum hennar.
Björt sagði að málið væri ekki forgangsmál hjá ráðherra að athuga „hvort og þá hvernig Íslendingar geti fengið allt að sjö sinnum hærra verð fyrir orkuna en við erum að selja hana á núna til stóriðju? Við erum að tala um marga tugi milljarða á ári aukalega í ríkissjóð ef rétt reynist.“ Þá spurði Björt af hverju ekki væri verið að athuga samlegðaráhrif við uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi, því þau verkefni gætu farið hönd í hönd.
„Ég vil fá að sjá niðurstöðu af þessari vinnu og Alþingi þarf að kalla mjög skýrt eftir henni því að ráðherra er hér til að framkvæma það sem hér er ákveðið.“
Hér má sjá ræðu Bjartar í heild sinni.
Verið að ganga frá útboði á greiningu á áhrifum sæstrengs
Ríkiskaup eru nýlega búin að bjóða út „ítarlega þjóðhagslega kostnaðar- og ábatagreiningu á áhrifum raforkusæstrengs á íslenskt samfélag.“ Búið er að opna tilboðin og kom í ljós í lok mars að Straumur fjárfestingabanki átti lægsta boðið í greininguna. Ellefu tilboð bárust og hljóðaði tilboð Straums upp á 11,9 milljónir króna. Ekki hefur þó enn verið gengið frá málinu. Þessi greining er liður í hagkvæmnisathugun íslenskra stjórnvalda á lagningu sæstrengs.
Í nóvember síðastliðnum var samþykkt á Alþingi beiðni frá öllum þingmönnum Samfylkingarinnar um skýrslu frá Ragnheiði Elínu „um lykilþætti er varða mögulegan útflutning orku um sæstreng.“ Skýrslan hefur ekki verið flutt.
Í lok nóvember, á ársfundi Landsvirkjunar, greindi Ragnheiður Elín frá því að hún hefði skipað nýja verkefnisstjórn til að halda áfram skoðun á sæstreng. Í henni sitja Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets og Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. „Ég lít því svo á að málefni sæstrengs séu í vandaðri og faglegri áframhaldandi skoðun,“ sagði Ragnheiður Elín þá.
Kjarninn og Íslensk verðbréf stóðu fyrir opnum fundi um málefni sæstrengs í gærmorgun. Þar kom fram í máli Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands og núverandi ráðgjafa aðila sem vilja koma að lagningu strengs þangað, að áhugi Breta á sæstreng frá Íslandi myndi ekki breytast. Allir flokkar hefðu sammælst um mikilvægi orkumála. Þá mátti einnig greina í máli hans að boltinn væri hjá Íslendingum og íslensk stjórnvöld þyrftu að sýna málinu áhuga á næstunni ef af lagningu sæstrengs á að geta orðið.