Björt framtíð næði ekki inn manni á þing ef þingkosningar færu fram í dag, Framsóknarflokkurinn mælist með 8,5 prósent fylgi þrátt fyrir að áætlun um losun hafta og það fjárhagslega svigrúm sem hún á að skapa hafi verið kynnt og Píratar bæta og bæta við sig fylgi. Þetta kemur fram í nýrri könnun Fréttablaðsins sem gerð var daganna 15. og 16. júní. Um er að ræða fyrstu könnunina sem gerð er eftir að umfangsmikil áætlun stjórnvalda um losun hafta var kynnt og samkomulag við kröfuhafa var gert í byrjun þessa mánaðar.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir töluvert við sig samkvæmt könnuninni og fengi 29,5 prósent atkvæða, sem er meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum (26,7 prósent). Þetta myndi skila Sjálfstæðisflokknum einum viðbótaþingmanni og hann myndi því fá 20 slika ef kosið yrði í dag. Framsóknarflokkurinn, sem leiðir ríkisstjórnina, heldur hins vegar áfram að tapa fylgi. Nú mælist það einungis 8,5 prósent sem myndi skila flokknum fimm þingmönnum. Í kosningunum í apríl 2013 fékk flokkurinn 24,4 prósent og 19 þingmenn. Sá mikli kosningasigur skilaði því að formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, varð forsætisráðherra.
Píratar hafa verið á miklu flugi það sem af er ári og fylgisaukning þeirra virðist engan enda ætla að taka. Í könnun Fréttablaðsins mælist fylgið 37,5 prósent, sem er það mesta sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með. Þessi niðurstaða myndi skila Pírötum 26 þingmönnum og flokkurinn yrði sá langstærsti á Alþingi og sá eini sem gæti myndað tveggja flokka stjórn.
Á sama tíma og Píratar hafa verið á fleygiferð hefur fylgi Bjartrar framtíðar verið í frjálsu falli. Flokkurinn sem mældist oft á tíðum næst stærsti flokkur landsins í fyrrahaust mælist nú með 3,3 prósent fylgi og næði ekki inn þingmanni.
Hvorki Samfylkingin né Vinstri grænir virðast höfða til kjósenda um þessar mundir. Fylgi Samfylkingarinnar mælist ellefu prósent, sem er undir kjörfylgi flokksins, en Samfylkingin beið einn stærsta kosningaósigur sögunnar í apríl 2013 þegar flokkurinn fékk 12,85 prósent atkvæða. Vinstri græn, sem eiga vinsælasta stjórnmálamann landsins í formanninum Katrínu Jakobsdóttur, myndu einungis fá 7,3 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag. Það myndi skila flokknum fimm þingmönnum. Vinstri grænir fengu 10,87 prósent atkvæða í kosningunum vorið 2013.