Bláa lónið fékk alls 221 milljón króna í stuðningsgreiðslur frá ríkinu vegna COVID-19 faraldursins á síðasta ári. Fyrirtækið fékk 602 milljónir króna í slíkar greiðslur árið áður og því samtals 823 milljónir króna frá byrjun faraldurs og til síðustu áramót. Þetta kemur fram í yfirliti yfir lykiltölur úr rekstri Bláa lónsins sem birtar hafa verið á vef fyrirtækisins.
Bláa lónið tapaði 4,8 milljónum evra, um 708 milljónum króna á árslokagengi 2021, í fyrra. Það er mun minna tap en á árinu 2020 þegar fyrirtækið tapaðist 20,7 milljónum evra, um 3,2 milljörðum króna á árslokagengi þess árs.
Tap síðustu tveggja ára minna en síðasta arðgreiðsla
Eigið fé Bláa lónsins var 54,5 milljónir evra, um átta milljarðar króna, í lok síðasta árs. Það var 79,5 milljónir evra í lok árs 2019, skömmu áður en að kórónuveirufaraldurinn skall á og lækkaði því um 31 prósent í evrum talið. Óráðstafað eigið fé Bláa lónsins var 4,5 milljarðar króna um síðustu áramót.
Enginn arður verður greiddur út vegna ársins 2021.
Bláa lónið metið á um 60 milljarða
Stærsti eigandi félagsins er Hvatning slhf. með eignarhlut upp á 39,6 prósent. Eigandi þess er Kólfur ehf., eignarhaldsfélag að stærstu leyti í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, og Eðvard Júlíussonar. Kólfur keypti tæplega helming í Hvatningu af Horni II, framtakssjóði í stýringu Landsbréfa, árið 2018.
Næst stærsti eigandinn er Blávarmi slhf., félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, sem keypti 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu á tæplega fimmföldu þáverandi bókfærðu virði hlutarins í maí 2019, eða á 15 milljarða króna. Blávarmi á nú 36,2 prósent eignarhlut.
Í ársskýrslum lífeyrissjóða sem eru á meðal hluthafa í bæði Hvatningu og Blávarma er hægt að sjá að þeir hafa hækkað verðmat sitt á félaginu á síðasta ári og meta það sé nú um 60 milljarða króna virði. Verðmatið í lok árs 2020 var um 40 milljarðar króna.
Fjárfestingafélagið Stoðir keypti umtalsverða hluti í Bláa lóninu í fyrra, meðal annars sex prósent hlut félags Helga Magnússonar, stærsta eiganda útgáfufélags Fréttablaðsins. Stoðir eiga nú 7,3 prósent hlut í fyrirtækinu og er fjórði stærsti eigandi félagsins.
Hundruð milljóna í uppsagnarstyrki
COVID-19 hafði gríðarleg áhrif á rekstur Bláa Lónsins á árunum 2020 og 2021.
Bláa Lóninu var gert að loka starfsstöðvum sínum í Svartsengi þann 23. mars 2020 í kjölfar reglna um ferðatakmarkanir milli landa og samkomubanns sem sett var á. Starfsstöðvarnar voru opnaðar aftur sumarið 2020 en svo lokað aftur þegar kórónuveiran fór á kreik á ný. Alls voru starfstöðvar Bláa lónsins lokaðar í sex mánuði á árinu 2020 og í átta mánuði á árinu 2021. Meðalfjöldi starfsmanna dróst nokkuð saman milli ára, úr 431 í 396.
Bláa lónið fékk alls 603,4 milljónir króna í stuðningsgreiðslur úr ríkissjóði til að standa straum af kostnaði vegna uppsagna á starfsfólki frá maí mánuði 2020 til og með febrúar 2021. Það úrræði stjórnvalda heimilaði fyrirtækjum sem orðið höfðu fyrir miklu tekjufalli að sækja styrk fyrir allt að 85 prósent af launakostnaði á uppsagnarfresti í ríkissjóð. Einungis tvö fyrirtæki fengu hærri uppsagnarstyrki, Icelandair sem fékk 3,7 milljarða króna og Flugleiðahótel ehf. sem fékk 626,7 milljónir króna. Ekki er tilgreint hvaða aðrar stuðningsgreiðslur Bláa lónið fékk á síðasta ári.
Auk þess nýttu hundruð starfsmanna Bláa lónsins hlutabótaleiðina svokölluðu á meðan að á faraldrinum stóð, en kostnaður vegna þess reiknast ekki sem stuðningur við fyrirtæki.
Laun stjórnar og forstjóra Bláa lónsins á síðasta ári voru 903 þúsund evrur, um 133,3 milljónir króna. Launakostnaður þeirra í evrum dróst saman um 3,6 prósent milli áranna 2020 og 2021.