Stjórn Blaðamannafélags Íslands skorar á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar að beita sér fyrir því gagnvart bandarískum stjórnvöldum að málsóknin gegn ástralska blaðamanninum Julian Assange verði felld niður.
Þetta kemur fram í bréfi sem stjórn BÍ sendi á forsætisráðherra á mánudag. Þar segir að vaxandi skilningur sé á því víða að málsóknin gegn Assange sé ekki eingöngu aðför gegn einum blaðamanni heldur árás á fjölmiðlafrelsi um allan heim.
„Ákæran gegn honum jafnar blaðamennsku við njósnir og tók Trump-stjórnin sér það vald að ákæra ástralskan blaðamann fyrir útgáfustarfsemi í Bretlandi, Þýskalandi, Svíþjóð og Íslandi,“ segir í bréfinu frá BÍ, sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður félagsins undirritar fyrir hönd stjórnar.
Stjórn BÍ segir að fordæmið sem sett sé með málarekstri Bandaríkjastjórnar gegn Assange þýði að allir blaðamenn, hvar sem er í heiminum, geti átt yfir höfði sér ákæru og framsalskröfu ef þeir birta eitthvað sem bandarískum stjórnvöldum hugnast að skilgreina sem ógn við sína hagsmuni.
Stjórnin fer þess á leit við íslensk stjórnvöld að þau „nýti hver það tækifæri sem upp kemur í samskiptum við bandarísk stjórnvöld til þess að vekja athygli á þeim mannréttindabrotum sem Assange verður fyrir og hve tilhæfulausar ásakanirnar gegn honum eru.“
Í bréfi stjórnarinnar er bent á að öll helstu mannréttindasamtök heims og einkum þau sem sérstaklega berjast fyrir málfrelsi og fjölmiðlafrelsi styðji Assange í baráttunni gegn þessari aðför Bandaríkjastjórnar, sem engum dyljist að sé pólitísk í eðli sínu.