Blaðamannafélag Íslands hvetur fjárlaganefnd til að endurskoða fyrirætlanir um tveggja prósenta lækkun framlags til styrkja til einkarekinna fjölmiðla. Þess í stað leggur félagið til að styrkir til einkarekinna fjölmiðla verði auknir í samræmi við auknar fjárveitingar til Ríkisútvarpsins (RÚV), eða um átta prósent. Það þýðir aukning styrkupphæðar um 30 milljónir króna í stað samdráttar um átta milljónir króna.
Þetta kemur fram í umsögn Blaðamannafélagsins um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Þar er bent á sama tíma og styrkir til einkarekinna fjölmiðla verði skertir milli ára er aukning á framlagi til Ríkisútvarpsins upp á 430 milljónir sem er hærri upphæð en allir styrkir til einkarekinna fjölmiðla á Íslandi samanlagt. „Lækkun styrkja til einkarekinna fjölmiðla milli ára er jafnframt í helberu ósamræmi við stöðu einkarekinna miðla, sem eru í meiri krísu en nokkurn tímann hefur þekkst. “
Hækkun til RÚV 40 milljónum meiri en allir styrkir til hinna
Miðað við fjárlög 2021 er aukningin í fjárlagafrumvarpi 2022 vegna skuldbindandi samninga vegna fjölmiðla, sem eru framlög til Ríkisútvarpsins, 430 milljónir króna. Framlög til Ríkisútvarpsins eiga því að fara úr 4.655 þúsund krónum á fjárlögum 2021 í 5.085 þúsund krónur samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2022.
Í umsögninni segir að starfsfólki í fjölmiðlum hafi fækkað um 45 prósent á árunum 2018 til 2020, eða um 731 alls. „Reynslan af þeim tveimur árum sem einkareknir fjölmiðlar hafa fengið opinbera styrki hefur sýnt að þeir skipta gríðarlega miklu máli fyrir fjölmiðlafyrirtæki í vexti og sem eru að þróa sjálfbæran rekstur og hafa jafnvel leitt til fjölgunar starfa á þeim miðlum. [...] Til að mynda má benda á að á árinu 2020 fékk útgáfufélag Stundarinnar styrk upp á 17,8 milljónir króna en tekjur þess jukust um 38,8 milljónir króna, eða 21 prósent. Á sama ári fékk útgáfufélag Kjarnans styrk upp á 9,3 milljónir króna en tekjur þess jukust um 18,3 milljónir króna á því ári, eða 31 prósent. Í tilfelli þessara miðla sést skýrt að hver króna í styrk leiðir af sér aðra krónu í nýjum tekjum. Þær tekjur umbreytast svo í ný störf.“
Í tilfelli stærri fjölmiðlafyrirtækja, sem treysta að uppistöðu á auglýsingatekjur, þá hafi styrkirnir mildað það högg sem kórónuveirufaraldurinn veitti þeim ásamt breyttum forsendum á auglýsingamarkaði og gert þeim kleift að forðast fjöldauppsagnir.“
Vilja að ríkisstjórnin grípi til enn frekari aðgerða
Í niðurlagi umsagnarinnar, sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir fomaður Blaðamannafélags Íslands skrifar undir, segir að félagið árétti að til þess að standa við áform sín um að ráðast í aðgerðir til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og öflugt almannaútvarp þurfi ríkisstjórnin, og fjárlaganefnd, að taka til skoðunar að grípa til enn frekari aðgerða en beinna styrkja til einkarekinna fjölmiðla. „Bendir Blaðamannafélagið í því samhengi á áskorun félagsins til stjórnmálaflokka sem send var út fyrir síðustu kosningar þar sem félagið leggur til stuðnings einkarekinna fjölmiðla.“
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir stuðningsgreiðslum úr ríkissjóði.