Flugfélagið Bláfugl, Bluebird Nordic, hefur verið ráðið af íslenska utanríkisráðuneytinu til þess að annast flutning á varningi, þar á meðal hergögnum, vegna stríðsins í Úkraínu. Flugvél félagsins flutti meðal annars hergögn frá Pisa á Ítalíu til Rzeszów, nærri landamærum Póllands og Úkraínu þann 12. mars og hefur félagið farið fleiri ferðir síðan.
Undir lok febrúarmánaðar var sagt frá því að Air Atlanta hefði verið fengið til þess að annast flug á vegum íslenskra stjórnvalda með einhvern varning, þar á meðal hergögn, sem flytja átti til Úkraínu. Ekki hefur áður verið greint frá því að Bláfugl hafi einnig verið að sinna slíku flugi.
Starfsemi Bláfugls er að mestu leyti úti í heimi þrátt fyrir að það sé með íslenskt flugrekstrarleyfi, en félagið er í eigu Avia Solutions Group, sem er með höfuðstöðvar á Kýpur. Félagið hefur, frá því að nýir eigendur keyptu það árið 2020, helst verið í umræðunni hérlendis vegna deilna um kjaramál við Félag íslenskra atvinnuflugmanna.
Ekki þörf á sérstöku vopnaflutningaleyfi fyrir ríkisflug
Umræddar flugferðir Bláfugls undanfarnar vikur eru samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu skilgreindar sem ríkisflug, en reglugerð nr. 464/2019 um flutning hergagna með loftförum til handa íslenskum flugrekanda nær ekki yfir ríkisflug, heldur einungis almennt flug. Það þarf því ekki sérstakt útgefið leyfi ráðuneytisins til þess að sinna hergagnaflutningum í skilgreindu ríkisflugi.
Air Atlanta er eina flugfélagið með íslenskt flugrekstrarleyfi sem hefur fengið útgefin sérstök leyfi það sem af er ári til þess að sinna almennu flugi með hergögn, en félagið hefur í áraraðir sinnt vopnaflutningum fyrir viðskiptavini sína.
Alls þrettán ferðir í heildina
Í svari frá utanríkisráðuneytinu til Kjarnans sem barst skömmu eftir að þessi frétt birtist segir að íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum vikum haft milligöngu um flutning á hergögnum frá ýmsum Evrópuríkjum til Úkraínu. Alls eru ferðirnar þrettán talsins, samkvæmt svari ráðuneytisins.
„Hefur þetta verið gert til að svara ákalli úkraínskra stjórnvalda um slíka aðstoð. Íslensk stjórnvöld hafa leigt fraktflugfélagar frá flugfélögunum Air Atlanta og Bluebird Nordic til þessara verkefna og hafa alls þrettán slíkar fraktflugferðir verið farnar í samstarfi við Albaníu, Slóveníu, Ítalíu, Króatíu og Portúgal til áfangastaða nærri landamærum Úkraínu. Flutningarnir eru í fyllsta samræmi við íslensk lög og reglur,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins.
Umfjöllun um óvæntan varning í ítölskum miðlum
Sigurður Örn Ágústsson forstjóri Bláfugls sagði frá því í tölvupósti til allra starfsmanna félagsins í gær, sem Kjarninn hefur séð, að flugfélagið hefði flutt skotfæri af einhverju tagi í leiguflugi á vegum íslenska utanríkisráðuneytisins frá Písa á Ítalíu til Póllands 12. mars.
Efni tölvupóstsins laut að fréttum sem höfðu verið sagðar í héraðsfréttamiðlum í Toskana-héraði á Ítalíu um miðjan síðasta mánuð, þess efnis að borgaralegir hlaðmenn á flugvellinum í Písa hefðu ekki verið meðvitaðir um að þeir ættu að fara að hlaða hergögnum um borð í vél Bláfugls.
„Í leiguflugi fyrir utanríkisráðuneytið frá Písa til Póllands þann 12. mars, virtust hlaðmennirnir í Písa vera undrandi á farminum, sem innihélt meðal annars skotfæri, þrátt fyrir að öll pappírsvinnan hafi verið fullkomin og öll leyfi hafi verið í lagi, og neituðu til að byrja með að ferma vélina. Síðar fermdu þeir þó vélina, þar sem þeir sáu að öll leyfi og pappírsvinna var í lagi, og flugið hélt af stað á áætlun. Og flugið var hægt að sjá á Flightradar allan tímann,“ sagði Sigurður í tölvupóstinum, sem var á ensku en er hér þýddur af blaðamanni.
Í umfjöllunum staðar- og héraðsmiðla í Toskana-héraði kom fram að stéttarfélag hlaðmanna hafi lýst yfir óánægju með það að borgaralegir starfsmenn flugvallarins hafi verið látnir meðhöndla hergögn. Einnig hefur verið gagnrýnt að þeim hafi verið hlaðið um borð í vél Bláfugls á borgaralegu svæði flugvallarins, en ekki þeim hluta hans sem hugsaður er undir hernaðarstarfsemi. Haft hefur verið eftir forseta Toscana Aeroporti, félags sem rekur flugvelli héraðsins, að það verði ekki látið endurtaka sig.
Í samtali við Kjarnann segir Sigurður Örn að Bláfugl hafi ekkert að gera með skipulagningu á því hvar á vellinum varningnum var komið um borð í vélina. Félagið hafi verið með alla pappíra á hreinu og öll tilskilin leyfi til þess að flytja varninginn.
„Það er alveg kristaltært,“ segir Sigurður Örn, sem segist ósáttur með umfjöllun ítalskra miðla um málið, en í einum miðli var stærsta eiganda Bláfugls, litáíska auðmanninum Gediminas Ziemelis, spyrt saman við rússneskan olígarka.
Sigurður Örn sagði einnig frá því í tölvupósti til starfsmanna Bláfugls að félagið hefði haldið áfram að fljúga samkvæmt samningi við íslenska utanríkisráðuneytið frá hinum ýmsu flugvöllum í Evrópu til Póllands, með varning sem fluttur er til Úkraínu þar sem hann „hjálpi Úkraínu að berjast gegn innrásarher og alræði.“
Sigurður Örn segir við Kjarnann að flugið fyrir utanríkisráðuneytið sé svona „aðeins pólitískt erfitt“ í ljósi stöðunnar í heimsmálunum.
Hann bætir því þó við að Bláfugl sé stolt af því að geta tekið þátt í að færa Úkraínumönnum hergögn sem nýtist í baráttunni við Rússa.
Er að hætta sem forstjóri
Í dag sendi Sigurður Örn svo annan tölvupóst á starfsmenn félagsins, þar sem hann sagði frá því að frá og með morgundeginum yrði hann ekki lengur forstjóri Bláfugls, heldur tæki Audrone Keinyté við stjórnunarhlutverkinu.
Sigurður verður þó áfram stjórnarformaður flugfélagsins og segir að alltaf hafi verið horft til þess að hann staldraði stutt við í starfi forstjóra.
Í samtali við Kjarnann sagði Sigurður Örn aðspurður að tilkynningin þess efnis að hann væri að færa sig til innan fyrirtækisins hefði ekkert með flug félagsins fyrir utanríkisráðuneytið að gera.