Jórdanski prinsinn Ali Bin al-Hussein dró framboð sitt til forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins til baka eftir fyrstu umferð kosninga. Það átti að kjósa aftur þar sem hvorugur frambjóðandinn til embættisins fékk 2/3 hluta atkvæða í kosningunni sem fór fram í dag. Í síðari kosningunni hefði nægt að fá meirihluta atkvæða til að vinna. Blatter fékk 133 atkvæði en Ali Bin al-Hussein 73.
Sepp Blatter verður því forseti knattspyrnusambandsins áfram næstu fjögur árin og situr fimmta kjörtímabilið. Hann hefur lofað því að hætta eftir þetta kjörtímabil.
Í miðvikudag voru níu háttsettir menn innan FIFA handteknir og ákærðir í Bandaríkjunum fyrir mútuþægni, peningaþvætti og fleira. Síðan þá hafa öll spjót staðið á Blatter, sem hefur neitað að draga framboð sitt til baka þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um það. Mikill meirihluta evrópskra knattspyrnusambanda, þar á meðal KSÍ, höfðu lýst því yfir að þau ætluðu ekki að kjósa Blatter. Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, sagði á blaðamannafundi í gær að nóg væri komið. „Fólk vill ekki Sepp Blatter lengur og ég vil hann ekki lengur heldur. Ég hef alltaf sagt að við viljum að FIFA sé sterkt en FIFA er ekki sterkt lengur. Ég er enn að reyna að sannfæra nokkur evrópsk knattspyrnusambönd sem eru ekki alveg sannfærð.“