Sepp Blatter, fráfarandi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, er sagður hafa greitt helsta keppinauti sínum í kosningum til embættisins, Michael Platini, um 1,3 milljónir punda nokkrum vikum áður en Platini dró framboð sitt til baka í forsetakosningum FIFA árið 2011. Saksóknari sem rannsakar meint brot Blatter í starfi, eins og greint var frá í síðustu viku, telur að Blatter hafi persónulega veitt heimild fyrir millifærslunni af reikningum FIFA til Platini, forseta Evrópska knattspyrnusambandsins UEFA. Upphæðin jafngildir rúmlega 250 milljónum króna. Frá þessu greinir dagblaðið The Telegraph.
Árið 2011 bauð Platini sig fram gegn Blatter í kosningum til forseta FIFA en hætti óvænt við, nokkrum mánuðum fyrir kosningar.
Fram kemur í umfjöllun The Telegraph að engin sönnunargögn sýni fram á að greiðslan til Platini hafi verið óeðlileg, að öðru leyti en að tímasetning hennar þykir tortryggileg. Platini og Blatter neita því báðir að nokkuð óeðlilegt hafi átt sér stað. Í tilkynningu sagði Platini að greiðslan hafi komið til vegna ráðgjafastarfa hans fyrir FIFA á árunum 1999 til 2002. Óljóst er hvers vegna greiðslan barst níu árum síðar, árið 2011.
Fyrir helgi var Sepp Blatter yfirheyrður af fulltrúum saksóknara í Sviss eftir fund stjórnar FIFA. Í yfirlýsingu frá saksóknaraembættinu kom fram að búið sé að hefja rannsókn á því hvort hann hafi gerst sekur um lögbrot. Rannsóknin á Blatter er hluti af viðamikilli rannsókn á FIFA og spillingu innan sambandsins. Meðal þess sem er til rannsóknar er greiðslan til Platini. Platini er ekki til rannsóknar í spillingarmálum er tengjast FIFA en hefur verið kallaður til yfirheyrslu í „upplýsingaskyni“, eins og það er orðað af saksóknara.