Hank Paulson (Henry, kallaður Hank), fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna og forstjóri Goldman Sachs bankans til rúmlega 15 ára, hefur gert með nokkuð nákvæmum hætti upp atburðina haustið 2008 þegar bandaríska ríkið lagði ævintýralegar fjárhæðir inn í fjárfestingabanka til þess að koma í veg fyrir allsherjarhrun fjármálamarkaða í Bandaríkjunum, og hugsanlega mun víðar.
Í heimildarmynd, sem aðgengileg er á þjónustu Netflix, segir Paulson meðal annars frá því að hann hafi kallað alla æðstu stjórnendur banka á Wall Street á fund til sín þegar staðan var orðin slæm og beðið þá um að leggja öll spilin á borðið og segja hvernig staðan væri. Þetta voru allt kallar, flestir á milli 40 og 60 ára. Enginn þeirra sem stýrði banka var tilbúinn að viðurkenna veikleika í sínu fyrirtæki, að sögn Paulson. Svo fékk hann upplýsingar frá reiknimeisturum sínum og bandaríska seðlabankans og kom þá í ljós að allir bankarnir voru fallvaltir, og sumir hreinlega á barmi hruns.
Paulson sagði þetta hafa breytt sýn sinni á bankageirann, að miklu leyti, því þarna hefði hann séð algjöra afneitun. Svo varð hann reiður í lok árs 2008, þegar í ljós kom að bónusgreiðslur vegna ársins 2008 - þegar bönkunum var bjargað með tæplega 1.000 milljarða Bandaríkjadala björgunarpakka - námu 18,4 milljörðum Bandaríkjadala. Þá fórnaði Paulson bara höndum af reiði.
Það er merkilegt að horfa á þessa mynd, og raunar einnig að lesa bókina hans, On The Brink, og velta fyrir sér stöðu mála nú á Wall Street. Lítið sem ekkert hefur breyst. Ennþá eru það fyrst og fremst kallar sem stýra bönkunum - einhverra hluta vegna er konunum sjaldan hleypt að - og bónusgreiðslurnar hafa sjaldan verið hærri. Samt eru bankarnir enn of stórir til að falla og alveg öruggt, að ef stjórnendur bankanna gerast of áhættusæknir í sinni stefnumótun, þá verður kafað ofan í vasa skattgreiðenda.
Þetta er staðan. Simon Johnson, fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og prófessor við MIT, hefur kallað þessa stöðu tæra blekkingu. Að allt fjármálakerfi heimsins sé byggt á þessari blekkingu.
Á þessu er varla hægt að hamra of oft. Þetta er siðlaus staða, gjörsamlega, og tengist hugmyndum um frjálsan markað og markaðsbúskap í raun lítið sem ekkert.