Hlutabréfamarkaðurinn er farinn að mótast verulega af fjármagnshöftum og þeirri staðreynd að kostir á fjármálamarkaði eru fáir. Velta með hlutabréf dróst verulega saman milli mánaða sé mið tekið af tölum sem Nasdaq OMX tók saman í mánaðarlegu yfirliti sínu fyrir kauphallir á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Í maímánuði nam velta með hlutabréf í kauphöllinni hér á landi 22,3 milljörðum, sem er 34 prósentum minni velta en var í aprílmánuði og 42 prósentum minni velta en í sama mánuði í fyrra.
Minni velta en vaxandi markaðsvirði
Þrátt fyrir að velta hafi verið töluvert minni í viðskiptum með hlutabréf hefur markaðsvirði félaga í kauphöllinni haldið áfram að hækka undanfarið ár. Markaðsvirði þeirra 18 félaga sem eru með skráð hlutabréf í kauphöllinni, bæði á Aðalmarkaði og á First North, nemur nú 593 milljörðum króna, eða sem nemur tæplega þriðjungi af árlegri landsframleiðslu Íslands. Á sama tíma í fyrra nam markaðsvirði skráðra félaga 473 milljörðum og hefur markaðsvirði skráðra félaga því aukist um 120 milljarða á einu ári.
Munar þar ekki síst um skráningu Granda, en viðskipti með hlutabréf félagsins hófust 25. apríl síðastliðinn. Sú skráning hefur reyndar dregið dilk á eftir sér og hefur Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, harðlega gagnrýnt hvernig að skráningunni var staðið, þar sem fölsk kauptilboð voru sett inn þegar félagið var skráð. Við þau var ekki staðið þegar á hólminn var komið og nam umfang þessara fölsku viðskipta 5,7 prósentum af heildarhlutafé. Margir hluthafar urðu reiðir yfir þessu og hafa kvartanir vegna þessa borist til Kauphallarinnar og FME. Páll sagði í samtali við Stöð 2, sem fjallaði ítarlega um málið, að full ástæða væri til þess að kanna hvort lög hefðu verið brotin með þessu.
Nýr hlutabréfamarkaður að mótast
Eftir hið ævintýralega hrun hlutabréfamarkaðarins haustið 2008, þegar hann féll nær allur saman samhliða falli Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, hefur orðið til nýr hlutabréfamarkaður þar sem gjörólíkar áherslur heldur en fyrir hrun einkenna rekstur. Þá var aðgengi að fjármagni gott og mikill þrýstingur frá fjárfestum á vöxt félaga og stækkun efnahagsreiknings, ekki síst með skuldsettum yfirtökum. Nú er öldin önnur. Tryggingafélögin TM, VÍS og Sjóvá hafa til dæmis litla sem enga vaxtarmöguleika hér á landi nema með því að stækka markaðshlutdeild á kostnað hlutdeildar samkeppnisaðila. Reyndin hefur verið sú að veigalitlar breytingar hafa orðið á hlutdeild félaganna. Reksturinn er í traustum skorðum og er áhersla fremur á arðgreiðslur til hluthafa. Það sama má segja um N1 og Haga. Vaxtarmöguleikar eru litlir sem engir en stöðugur rekstur sem skilar hluthöfum arði er fyrir hendi.
Gríðarleg ávöxtun í skjóli fjármagnshafta
Frá hruni hefur markaðsvirði skráðra félaga aukist mikið, margfaldast raunar í sumum tilvikum. Þannig var skráningargengi fyrsta félagsins á markað eftir hrunið, Haga, 13,5 við skráningu á markað en er nú 45,5. Það sama má segja um Icelandair, sem var endurskráð á markað á genginu 2,5 eftir hrunið en gengi félagsins í kauphöllinni nú er 17,7. Viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði eru á einu máli um að fjármagnshöftin hafi haft mikil áhrif á markaðinn til þess að byrja með, þar sem mikill þrýstingur hafi verið á skráningar félaga með góðan rekstrargrundvöll eftir hrunið, ekki síst til að mæta fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna á markaðnum. Þetta hafi leitt til mikillar hækkunar bréfa þegar markaðurinn var að spyrna sér frá botninum. Í hverjum mánuði þurfa lífeyrissjóðirnir að fjárfesta fyrir 12 til 13 milljarða króna til þess ávaxta fé sjóðfélaga og því skiptir máli að fjárfestingarkostir séu til staðar. Þrýstingurinn á fjárfestingarmöguleika í kauphöllinni var ekki síst úr þessari átt, enda lífeyrissjóðirnir langsamlega umsvifamestu fjárfestar á markaði, heilt á litið.
Blikur á lofti
Eftir miklar hækkanir á gengi hlutabréfa hefur hægt á þessum miklu hækkunum og markaðurinn sýnt eðlilegri verðmyndun, þó að sveiflur í veltu hafi verið mun meiri en á öðrum mörkuðum á Norðurlöndunum eða víðar. Ástæðan er ekki síst sú að markaðurinn á Íslandi er dvergvaxinn í næstum öllum samanburði og býr ekki við alþjóðlegar fjármagnshreyfingar milli landa, en félög sem skrá sig á markað erlendis gera það ekki síst til þess að ná til alþjóðlegra fjárfesta og tengjast nýjum mörkuðum.
Eftir því sem ströng fjármagnshöft verða lengur, þeim mun erfiðara verður fyrir fjárfesta að átta sig á verðlagningu á markaðnum, hvort sem um hluta- eða skuldabréf er að ræða. Viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði sögðu höftin vera farin að hafa veruleg áhrif á markaði, fé leitaði inn á fasteignamarkað í meiri mæli en í eðlilegu árferði og veruleg hætta væri á verðbólu. Þá er farið að bera á því að fjárfestar séu að taka skortstöðu gegn félögum á markaði þar sem veðjað er á lækkun á gengi bréfa, t.d. samhliða rýmkun fjármagnshafta.
Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir enn hvenær fjármagnshöft verða rýmkuð eða afnumin eru fjárfestar, í litlum mæli þó, farnir að horfa til þess að eignaverð gæti lækkað þegar opnað verður fyrir nýjar leiðir til fjárfestinga úr landinu. Greiningar frá sérfræðingum greiningardeilda bankanna hafa þó ekki gefið til kynna að félögin séu yfirverðlögð, nema í undantekningartilvikum þar sem sú ráðgjöf er veitt að selja bréfin. Rekstrarkennitölur þykja ekki benda til yfirverðlagningar að mati sérfræðinganna. En það er með rekstrarkennitölurnar eins og verðlagningu á vörum almennt innan strangra fjármagnshafta; það er erfitt að greina hvað er rétt og rangt.
Úttektin birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann í heild sinni hér.