Að minnsta kosti 40 manns særðust og sjö féllu í skotárásum sem áttu sér stað í Chicago-borg um helgina, en Bandaríkjamenn fögnuðu þjóðhátíðardegi sínum á laugardaginn, þann 4. júlí. Fréttastöðin CNN greinir frá málinu.
Um er að ræða tímabilið frá morgni föstudags til síðdegis á sunnudag, en á meðal þeirra sem létu lífið um helgina í Chicago var sjö ára drengur. Hann varð fyrir byssukúlu sem var ætluð föður hans, sem er háttsettur klíkumeðlimur í borginni. Faðir hans hafði verið handtekinn 45 sinnum og var með langa sakaskrá. Feðgarnir voru að fylgjast með flugeldasýningu á þjóðhátíðardaginn þegar þeir og aðrir viðstaddir lentu skyndilega í byssukúlnaregni.
Lögregluyfirvöld í Chicago hafa undanfarin ár átt í harðri baráttu við klíkur í suðurhluta borgarinnar, sem er fátækasta svæði vindasömu borgarinnar við Michigan-vatn. Chicago er með hættulegri borgum Bandaríkjanna og með eina hæstu morðtíðnina.
„Kerfið okkar er bilað“
Í suðurhluta borgarinnar er byssueign mjög útbreidd og hefur lögregla ráðist í sérstakt átak til að fækka byssum á götum borgarinnar. Frá því á föstudagsmorgun hafa laganna verðir haldlagt eitt skotvopn á hverri klukkustund.
„Kerfið okkar er bilað, og við þurfum að gera við það,“ hefur CNN eftir lögreglustjóranum Garry McCarthy. „Glæpamenn óttast ekki réttarkerfið, og því þarf að breyta. Við verðum að hefta flæði skotvopna til borgarinnar. Ef þeir óttast ekki viðurlögin að vera með ólöglegt skotvopn, þá er eitthvað að.“
Þrátt fyrir blóðuga þjóðhátíðarhelgi í Chicago, voru skotárásirnar 64 talsins á sama tímabili í fyrra. Þá slösuðust 69 og fimmtán létu lífið.