Ólíklegt er að íslensk stjórnvöld muni taka þeim tilboðum sem stærstu kröfuhafar slitabúa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa lagt fram um að mæta settum stöðugleikaskilyrðum. Þetta hefur Bloomberg-fréttastofan eftir tveimur embættismönnum sem tengjast ferlinu.
Kröfuhafar slitabúanna hafa þegar samþykkt að greiða 334 milljarða króna samtals í stöðugleikaframlag til að fá undanþágu frá fjármagnshöftum og geta lokið við gerð nauðasamninga. Framlagið þarf að ríma við sett stöðugleikaskilyrði sem búin hafa samþykkt að mæta, og á að koma í veg fyrir að slit búanna skapi neikvæð áhrif á gengi og á gjaldeyrisforða Íslands.
Samkvæmt heimildum Kjarnans gengur mun betur að ganga frá stöðugleikaframlagi slitabúa Landsbankans og Kaupþings en Glitnis, sem er það bú sem samþykkt hefur að greiða langhæstu greiðsluna í framlag, alls um 200 milljarða króna.
Slitabúin þurfa að ná að sannfæra Seðlabanka Íslands um að þau séu að mæta stöðugleikaskilyrðunum, fá undanþágu sína og klára nauðasamningsgerð fyrir lok þessa árs. Takist það ekki mun leggjast á 39 prósent stöðugleikaskattur sem á að skila ríkinu um 850 milljörðum króna.
Kjarninn fjallaði um það nýverið að titrings gæti á meðal kröfuhafa föllnu bankanna um þessar mundir vegna tafa sem hafa orðið á ferlinu.
Sigmundur segir kröfuhafa vera að brenna inni á tíma
Í frétt Bloomberg segir að stjórnvöld séu að miða við að stöðugleikaframlagið þurfi að vera um 470 milljarðar króna í útreikningum sínum, og því beri enn of mikið á milli. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir í samtali við Bloomberg að slitabúin séu að brenna inni á tíma við að klára sín mál. Hann sagði að hluti kröfuhafa vær nær því að mæta stöðugleikaskilyrðunum en aðrir, en vildi ekki útskýra það nánar.
Mikil gagnrýni hefur verið á það uppgjörsferli sem er í gangi og stefnt er að því að klára með greiðslu stöðugleikaframlags, sérstaklega vegna skorts á gagnsæi. InDefence-hópurinn, sem Sigmundur Davíð var einu sinni hluti af, hefur til að mynda sagt að að kröfuhafar séu að fá ódýra leið út úr íslenskum höftum sem muni skerða lífskjör almennings.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri virðist þó mun bjartsýnni en margir aðrir á að það muni takast að ljúka nauðasamningsgerð föllnu bankanna fyrir áramót. Í bréfi sem hann skrifaði InDefence-hópnum í september sagði hann að þau ð nauðasamningum sem slitabú föllnu bankanna þriggja hafa sent inn til Seðlabankans uppfylla „í stórum dráttum skilyrði um stöðugleika í gengis- og peningamálum“ og tryggja fjármálalegan stöðugleika í íslensku hagkerfi. Ýmis atriði þarf þó að skoða nánar, meðal annars áhrif nauðsamninganna á á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja og söluferli Íslandsbanka og Arion. „Sú skoðun er á lokastigi og í framhaldi af því gætu skapast forsendur fyrir nánari opinberri kynningu“.