Starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins er að hefja vinnu við að móta nýja framtíðarsýn fyrir Þjóðskrá Íslands og Útlendingastofnun. Hópurinn á að skila áfangaskýrslu til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, eigi síðar en 1. apríl næstkomandi. Markmið vinnu hans er meðal annars að kanna möguleikann á sameiningu Þjóðskrár og Útlendinastofnunnar. Þetta kemur fram á vef innanríkisráðuneytisins.
Hópurinn á meðal annars að „kanna fýsileika þess að sameina Þjóðskrá Íslands og Útlendingastofnun“ og fara „heildrænt yfir verkefni Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar, móta tillögu um að færa frá stofnununum verkefni sem betur verður sinnt annars staðar í ríkiskerfinu og færa til þeirra verkefni sem eiga samleið með verkefnum þeirra.“
Markmið verkefnisins er einnig að svara brýnni þörf ríkis og sveitarfélaga fyrir miðlæga þjónustu í upplýsingatæknimálum og rafrænni þjónustu og móta nýja framtíðarsýn í málaflokkum sem heyra undir stofnanirnar tvær.