Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að ráðast í mótvægisaðgerðir til að „draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins“, eins og það er orðað í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Áætlaður heildarkostnaður aðgerðanna sem samþykktar voru í dag er á bilinu 4,7-5,2 milljarðar það sem eftir lifir árs og 7,1-7,6 milljarðar á ársgrundvelli.
Þriggja prósenta hækkun almannatrygginga
Aðgerðirnar eru þær að bætur almannatrygginga (m.a. örorkubætur og ellilífeyrisbætur) hækka um 3 prósent frá 1. júní, húsnæðisbætur hækka um 10 prósent frá sama degi og sérstakur 20 þúsund króna barnabótaauki verður greiddur út í lok júní, með hverju barni, til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur.
Áætlaður kostnaður við hækkun bóta almannatrygginga nemur 3-3,5 milljörðum það sem eftir lifir árs og 5-5,5 milljörðum á ársgrundvelli. Kostnaður við hækkun húsnæðisbóta nemur svo um 600 milljónum það sem eftir lifir árs og um 1 milljarði króna á ársgrundvelli og útgreiðsla barnabótaaukans mun kosta um 1,1 milljarð króna, samkvæmt áætlunum stjórnvalda. Í heildina er kostnaður því rúmir 4,7-5,2 milljarðar það sem eftir lifir árs og varanleg hækkun sem nemur um 7,1-7,6 milljörðum á ársgrundvelli.
Komið til móts við þá sem verðbólgan hafi hvað mest áhrif á
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í færslu á Facebook að ríkisstjórnin sé með þessu að bregðast við vaxandi verðbólgu með því að „koma til móts við þessa hópa sem verðbólgan hefur hvað mest áhrif á og koma þannig í veg fyrir vaxandi fjárhagserfiðleika og ójöfnuð“.
Í tilkynningunni á vef stjórnarráðsins segir að sérstaklega hafi verið horft á þessa hópa eftir ítarlega greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
„Ríkisstjórnin telur brýnt að koma til móts við þann hóp sem hækkandi verðbólga mun bitna verst á og það strax. Ríkisstjórnin mun engu að síður leggja áherslu á aðhaldssöm ríkisfjármál til að styðja við peningastefnu Seðlabankans,“ segir einnig í tilkynningunni á vef stjórnarráðsins.