Helga Seljan þótti Bogi Ágústsson heldur óskýr þegar hann las frétt um hækkun á hlutabréfavísitölum Dow Jones, Nasdaq og S&P, í fjórða þætti Ferðar til fjár. Bogi var í miðri setningu, að segja frá hækkun Dow Jones vísitölunnar, þegar Helgi krafðist útskýringa.
„Vá,“ sagði Helgi. „Hvað var þetta?“
„Þetta eru annars konar vísitölur,“ sagði Bogi en í þriðja þætti útskýrði Bogi vísitölu neysluverðs. „Dow Jones vísitalan mælir verð á hlutabréfum í þrjátíu stórum bandarískum fyrirtækjum. Hún er ekkert ofboðslega mikið notuð. Vísitalan er mikið notuð í fjölmiðlum en ekki eins mikið á verðbréfamörkuðum, aðrar hlutabréfavísitölur þykja gagnlegri,“ sagði Bogi við Helga.
„Ókei, prófaðu núna að útskýra þetta fyrir mér eins og ég sé fimm ára,“ sagði Helgi, og gerði Boga það nokkuð auðveldara fyrir með réttri líkamsstellingu.
„Vísitalan mælir verð á hlutabréfum í 30 stórum fyrirtækjum í ameríku. Hvort að það fer hækkandi eða lækkandi. Ef að hlutabréfaverð þessara félaga þá hækkar vísitalan, en lækkar ef hlutabréfaverð lækkar,“ útskýrði hann. Félögin sem tilheyra Dow Jones vísitölunni eru öll rótgróin bandarísk félög og er vægi þeirra í vísitölunni misjafnt eftir stærð þeirra. Meðal fyrirtækjanna eru Coca-Cola Company, Walt Disney, Exxon, Microsoft og stór fjármálafyrirtæki. http://money.cnn.com/data/dow30/.
Lítil áhrif á almenning
„Hvaða áhrif hefði þetta á Helga eldri,“ spurði Helgi.
„Ekkert mjög mikil, nema það yrðu mjög miklar sveiflur og mikið hrun,“ svaraði Bogi. „Til dæmis þegar kreppan mikla hófst á 4. áratug síðustu aldar, þá varð gríðarlegt hrun hlutabréfa á Wall Street. En frá degi til dags, þá hefur þetta litla þýðingu fyrir þig, því þú átt engin hlutabréf.“
Svona er íslenska hlutabréfavísitalan
Á Íslandi er helsta hlutabréfavísitalan OMX I8. Hún mælir breytingar á hlutabréfaverði átta stærstu hlutafélaganna í Kauphöllinni og er vægi þeirra í vísitölunni misjafnt eftir stærð þeirra. Félögin átta eru Eimskip, Grandi, Hagar, Icelandair, Marel, N1, TM og VÍS. Með tilkomu nýrra félaga hefur vísitala Kauphallarinnar breyst nokkuð. Á síðasta ári var þróun vísitölunnar með þessum hætti, en hækkun frá ársbyrjun til ársloka nam tæpum tveimur prósentum:
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 19. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.