Í bók Eggerts Skúlasonar, Andersen skjölin – rannsóknir eða ofsóknir?“, er sagt frá því að þáverandi starfsmanður Fjármálaeftirlitsins hafi boðist til þess að afhenda Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings, og lögmanni hans skýrslu eftirlitsins um meinta markaðsmisnotkun Kaupþings sem hafði verið send til embættis sérstaks saksóknara. Hann vildi frá 30 milljónir króna fyrir gögnin. Hreiðar Már hitti manninn á bílastæði við Árbæjarkirkju í september 2011 til að fara yfir málið. Þar á maðurinn að hafa sýnt honum skýrsluna á tölvu sinni en hún hafi orðið straumlaus skömmu eftir að lestur hófst. Hreiðar Már hitti manninn ekki aftur og keypti ekki skýrsluna.
Frá þessu er greint í DV í dag en Eggert, höfundur bókarinnar, er ritstjóri blaðsins.
Þessa daganna stendur yfir aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Þar er Hreiðar Már á meðal sakborninga. Hann var dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar í Al Thani-málinu svokallaða fyrr á þessu ári, meðal annars fyrir markaðsmisnotkun.
Átti að sýna fram á sjónarmið um sakleysi
Í frétt DV um bók Eggerts segir að innihald skýrslunnar hafi átt að sýna fram á ýmis sjónarmið sem styddu við þá skoðun að stjórnendur Kaupþings hefðu ekki gerst sekir um markaðsmisnotkun. Í bókinni segir að þeim atriðum hafi hins vegar „öllum verið eytt út í lokaútgáfunni sem send var sérstökum saksóknara.“
Bæði Hreiðar Már og Hörður Felix Harðarson, lögmaður hans, staðfesta þessa frásögn samkvæmt DV. Höfundur bókarinnar náði hins vegar ekki tali af fyrrum starfsmanni Fjármálaeftirlitsins sem vildi selja skýrsluna á 30 milljónir, að því er kemur fram í bókinni.
Í DV kemur fram að starfsmaðurinn fyrrverandi hafi átt frumkvæði að því að hitta Hreiðar Má. Í bókinni segir: „Hörður tók erindinu vel og hittust þeir nokkru síðar. Þar kvaðst maðurinn hafa í fórum sínum gögn sem myndu hjálpa skjólstæðingi Harðar, Hreiðari Má, en hann vildi fá 30 milljónir króna fyrir þau. Maðurinn vildi lítið segja um efni þessara gagna annað en að þau gætu nýst í málsvörninni sem framundan væri vegna ákæru sérstaks saksóknara í markaðsmisnotkunarmáli á hendur nokkrum fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings, þeirra á meðal Hreiðari Má.“
Hittust á bílastæði við Árbæjarkirkju
Hörður Felix tilkynnti manninum að athæfið væri ólöglegt og hann gæti því ekki verið milligöngumaður í málinu. Hreiðar Már ákvað hins vegar að hitta manninn. „Hreiðar Már trúði vart eigin eyrum. Hann segir að það hafi verið mjög stór ákvörðun að vega og meta hvort hann ætti að freista þess að hitta manninn en úr varð að þeir gerðu það. Uppljóstrarinn lagði til að fundurinn færi fram að kvöldlagi og skyldu þeir hittast á bílastæðum við Árbæjarkirkju. Hreiðari Má fannst þetta allt að því súrrealískt og minnti hann á atriði úr kvikmynd. Skilyrði var að Hreiðar Már kæmi yfir í bílinn til mannsins.“
Síðan segir að Hreiðar Már hafi hitt manninn á bílastæði við Árbæjarkirkju klukkan tíu í september 2011.
„Hreiðar Már lagði bíl sínum í annarri röð svo að nokkuð var á milli bílanna. Því næst gekk hann yfir að bíl uppljóstrarans og settist í framsætið, farþegamegin. Maðurinn var taugaóstyrkur og Hreiðar Már viðurkennir að hann hafi sjálfur sveiflast á milli þess að vera undrandi og smeykur. Fyrst sagðist maðurinn vera ósáttur við vinnubrögð Fjármálaeftirlitsins vegna skýrslunnar um meinta markaðsmisnotkun Kaupþings, sem hefði verið send til sérstaks saksóknara.“
Maðurinn sagði að skýrslan væri með rekjanlegum breytingum (e. track changes). Samkvæmt DV komu fram þar sjónarmð sem „styddu við að ekki hefði verið um markaðsmisnotkun að ræða en að þau atriði hefðu aftur á móti ekki fylgt með í lokaútgáfu skýrslunnar til sérstaks saksóknara.“
Maðurinn á síðan að hafa sýnt Hreiðari Má skýrsluna í aftursæti bifreiðar sinnar. Í DV segir: „Um leið og maðurinn opnaði tölvuna sá Hreiðar að þetta var skýrsla Fjármálaeftirlitsins, sem send var til sérstaks saksóknara vegna meintrar markaðsmisnotkunar Kaupþings. Hreiðar Már var rétt byrjaður að skoða skýrsluna þegar tölvan varð straumlaus. Við svo búið kvaddi Hreiðar Már manninn.“
Hreiðar Már hitti manninn ekki aftur og samkvæmt DV veit hann enn ekki hvert innihald gagnanna er.