Allt stefnir í að bókaðar gistinætur í gegnum vefsíðuna Airbnb verði 80 milljón talsins í ár og tvöfaldist frá árinu 2014, þegar þær voru um 40 milljón talsins. Frá þessu greinir Reuters í dag og hefur upplýsingarnar eftir ónafngreindum fjárfesti sem þekkir vel til reksturs Airbnb. Í umfjöllun Reuters segir að barátta vefsíðunnar við yfirvöld, sem víða vilja regluvæða umhverfi bókanavefsíða á borð við Airbnb, hafi enn sem komið er ekki dregið úr alþjóðlegum vexti félagsins.
Airbnb vill ekki staðfesta rekstrartölur er varða fjölda bókana en hefur upplýst að um 1.5 milljónir eigna séu skráðar á vefsíðunni í yfir 34 þúsund borgum í 190 löndum. Flestar eignir eru skráðar til leigu í París í Frakklandi, eða um 60 þúsund eignir. Um helmingur tekna félagsins kemur frá Evrópu samanborið við 30 prósent í Bandaríkjunum.
Komu Airbnb hefur verið tekið misjafnlega af borgaryfirvöldum. Sjaldnast er fyrir hendi regluverk utan um heimagistingar af þessu tagi, og á meðan margir fagna valkostinum, ekki síst almenningur, þá hafa yfirvöld haft áhyggjur meðal annars af eftirliti starfseminnar og innheimtu skatttekna. Í San Francisco, fæðingarborg fyrirtækisins, hafa borgaryfirvöld talið síðuna ýta undir leiguverð og vilja bregðast við með því að takmarka skammtímaútleigu einstaklinga við nokkra mánuði á ári.
Eins og fyrr greinir hefur andstaða borgaryfirvalda víða, meðal annars í New York borg, ekki haft áhrif á gríðarlegan vöxt félagsins, sem metið er á 25,5 milljarða dollara.