Sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi greiddi eigendum sínum 2,7 milljarða króna í arð á síðasta ári, en félagið greiddi 1,3 milljarða í veiðigjald og sérstakt veiðigjald árið 2013. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag.
Þar kemur fram að arðgreiðslur stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna séu tvöfalt hærri en greiðslur í veiðigjöld. Samherji og Síldarvinnslan hafi greitt eigendum sínum tvo milljarða króna í arð hvort fyrirtæki á síðasta ári, en Samherji greiddi rúmar 890 milljónir króna í veiðigjöld og Síldarvinnslan tæplega 720 milljónir. Ísfélagið greiddi fjórðu hæstu veiðigjöldin, eða samtals 709 milljónir króna, en félagið er í ellefta sæti yfir kvótahæstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins.
Samkvæmt frétt Fréttablaðsins horfir málið öðruvísi við þegar horft sé til félaganna Þorbjörns í Grindavík og FISK Seafood á Sauðárkróki. Þorbjörn greiddi engan arð en greiddi 365 milljónir króna í heildarveiðigjöld á síðasta ári, á meðan FISK Seafood greiddi 333 milljónir króna í heildarveiðigjöld en 266 milljónir rúmar í arð.
Samkvæmt skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveginn, sem kom út í gær, námu opinber gjöld sjávarútvegsfélaga 28 milljörðum króna á síðasta ári. Þar vó veiðigjaldið þyngst, var um 9,7 milljarða króna, það er 4,9 milljarðar vegna almenns veiðigjalds og 4,8 milljarðar vegna sérstaks veiðigjalds.