Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í gær að setja þak á hóteluppbyggingu í Kvosinni. Samkvæmt þakinu mega hótel ekki vera meira en 23 prósent af starfseminni á svæðinu. Fari Landssímareiturinn svokallaði í hóteluppbyggingu er því hámarki náð. Eftir það verða ekki fleiri hótel byggð í Kvosinni.
Í vikulegu fréttabréfi sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sendir frá sér á föstudögum segir að með þakinu vilji borgin stuðla að því að Kvosin verði ekki einsleit og að uppbygging í þágu ferðaþjónustu dreifist víðar.
Þar segir einnig að nauðsynlegt sé „að kanna hvort grípa þurfi til viðlíkra aðgerðar víðar, t.d. við Laugaveg og Hverfisgötu.“
Aðspurður um hvort hann telji að það þurfi að grípa til þess að setja þak á hóteluppbyggingu við Laugaveg og Hverfisgötu líka svarar Dagur játandi. Fyrirspurnir sem varða þessar tvær götur gefi fullt tilefni til þess. „Ég lýsti því yfir á opnum fundi um uppbygginguna í Reykjavík að við þurfum að vera vakandi fyrir því að setja þak á hlutfall gistingar á fleiri stöðum. Fyrirspurnir og beiðnir sem varða þessar tvær lykilgötur gefa fullt tilefni til þess. Hótel geta reyndar átt vel heima við verslunargötur að því gefnu að það séu verslanir og lifandi starfsemi á jarðhæðum en það þarf þá að tryggja, ásamt nauðsynlegum gæðum í öllum frágangi og hlutfall gistingar af heildinni þarf að skoða til þess að fjárfesting og uppbygging verði ekki of einhæf.“