Fimm borgarfulltrúar sátu hjá við kosningu Gústafs Níelssonar sem varamanns í Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar í gær. Þeirra á meðal var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, en auk hans sátu borgarfullrtúarnir Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir og Halldór Auðar Svansson hjá við kosningu Gústafs.
Ákvörðun oddvita Framsóknar og flugvallavina, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttir, að skipa Gústaf sem varamann í ráðið vakti hörð viðbrögð og þá ekki síst á meðal forkólfa innan Framsóknarflokksins. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra voru á meðal þeirra sem gagnrýndu skipunina mjög og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráherra sagði hana „mistök.“ Gústaf hefur meðal annars barist gegn hjónaböndum samkynhneigðra og byggingu mosku í Reykjavík. Svo hörð viðbrögð vakti skipun hans að hún var dregin til baka í dag.
Fóru gegn ríkjandi hefð
Samkvæmt hefð kjósa allir borgarfulltrúar með þeim fulltrúum sem borgarstjórnarflokkarnir tilnefna í hinar ýmsu nefndir borgarinnar hverju sinni. Til marks um það hlutu sex fulltrúar framboðanna samhljóða kosningu á fundi borgarstjórnar í gær, eða allir nema Gústaf. Eins og áður segir sátu fimm borgarfulltrúar hjá við kosninguna á Gústaf, og fóru þeir því gegn ríkjandi hefð með afstöðu sinni. Aðrir borgarfulltrúar kusu með skipun Gústafs, og var hann því kjörin með tíu atkvæðum.
„Ég sat hjá vegna þess að ég þekki til Gústafs og málflutnings hans. Ég veit að það voru ekki allir sem þekktu til þess þar sem borgarfulltrúar Framsóknarflokksins höfðu ekki tilkynnt um það fyrirfram. Tilnefning í þetta varamanns sæti var auðvitað einungis á ábyrgð Framsóknarflokksins. Það er nánast óskrifuð regla að virða tilnefningar flokka í kosningum í nefndir og ráð, og einhverjir hafa ef til vill greitt atkvæði með skipaninni út frá þeirri reglu, þrátt fyrir að þekkja til Gústafs. Ég held að ábyrgð Framsóknarflokksins hljóti að vera lykilatriðið í málinu, og því mikilvægt að flokkurinn hefur dregið skipanina til baka. Ég man ekki eftir styttri varamannsferli í borgarstjórn,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við Kjarnann.
Aðspurður um afturköllun á skipun Gústafs, svaraði Dagur: „Ég er mjög feginn að þetta hafi orðið niðurstaðan.“