Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að þau framkvæmdaleyfi sem gefin hafi verið út á Valsreitnum svokallaða, tengist einungis veglagningu og undirbúningsframkvæmdum á reitum sem séu utan fluglínu og hafi því hvorki áhrif á Reykjavíkurflugvöll til eða frá. Þetta segir borgarstjóri í samtali við Kjarnann og vísar þar með á bug gagnrýni innanríkisráðherra á vinnubrögð borgarinnar í málinu.
Innanríkisráðuneytið sendi Reykjavíkurborg bréf í síðustu viku þar sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra lýsti þeirri afstöðu sinni að það hafi verið „með öllu ótímabært að gefa út framkvæmdaleyfi og hefja framkvæmdir“ á svæði Valsmanna við Hlíðarenda. Ástæðan er sú að framkvæmdirnar, sem séu undanfari frekari uppbyggingar og byggingaframkvæmda í Vatnsmýrinni, geti ekki átt sér stað nema að skipulagsreglum Reykjavíkurflugvallar, sem heyri undir innanríkisráðuneytið, sé breytt.
Sakar borgina um að fara fram úr sér
Í bréfi innanríkisráðuneytisins segir einnig að Samgöngustofa hafi til umfjöllunar möguleg áhrif lokun neyðarbrautarinnar og að Rögnunefndin svokallaða, sem kannar mögulega flugvallarkosti, hafi ekki lokið störfum. „Á meðan að niðurstöður nefndarinnar liggja ekki fyrir og ekki hafa verið teknar ákvarðanir á grundvelli tillagna hennar verður flugbraut 06/24 [svokölluð neyðarbraut] ekki lokað eða aðrar ákvarðanir teknar sem leiða til þess að flugbrautin verði tekin úr notkun.
Í ljósi framangreindra atrið var með öllu ótímabært að gefa út framkvæmdaleyfi og hefja framkvæmdir á þeim grundvelli. Ráðuneytið skorar á Reykjavíkurborg að virða gildandi skipulagsreglur og þá stjórnsýslumeðferð sem er í gangi fyrir Samgöngustöfu.“
Seinagangur hjá innanríkisráðuneytinu
Borgarstjóri segir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans aðspurður um viðbrögð hans við bréfi innanríkisráðherra að bréfið verði kynnt í borgarráði í næstu viku og því svarað formlega í kjölfarið.
„Borgin fer að sjálfsögðu að lögum, og vinnur samkvæmt gildandi skipulagi í þessu máli einsog öðrum. Þarna eru jafnframt í gildi samningar sem að sjálfsögðu ber að virða. Okkur er ljóst að dregist hefur af hálfu innanríkisráðuneytisins að breyta skipulagsreglum vallarins í samræmi við samninga og deiliskipulag vallarins, sem unnið var í samráði við ráðuneytið. Ég reikna með að leitað verði skýringa í því efni og að sjálfsögðu er þar ekki við borgina að sakast,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.