Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í seinni fréttum RÚV í gærkvöldi að hann teldi ástæðu til að kanna hvort skynsamlegt væri að reisa nýjan Landspítala á lóð Ríkisútvarpsins. Skoða ætti hvort skynsamlegt væri að selja fasteignir spítalans og „ná þannig inn jafnvel tugum milljarða strax sem hægt væri að nota til þessa að setja uppbyggingu nýs spítala alveg á fullt á nýjum stað,“ sagði forsætisráðherrann við RÚV í gær.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir á Facebook-síðu sinn í dag að hann voni að ummæli forsætisráðherra séu gabb og að honum hafi tekist að láta fjölmiðla hlaupa apríl. „Við skulum vona að þetta sé gabb, og að heilbrigðis- og fjármálaráðherra séu að fylgja eftir einróma samþykkt Alþingis (þmt forsætisráðherra) um að hefja þegar byggingu Landspítala við Hringbraut - sem raunar tæplega milljarður rennur til á þessu ári. Bygging spítalans er löngu tímabær og þjóðarskömm hvernig komið er í húsnæðismálum þessa hjarta í heilbrigðiskerfi landsmanna allra,“ segir Dagur á Facebook.
Á að selja spítalann og breyta í hótel?
Hann segir að frumforsenda Sigmundar Davíðs, um að græða á sölu lóða til að fjármagna spítalann standist ekki. „Borgin á lóðirnar við Hringbraut en ekki ríkið og hefur látið þær endurgjaldslaust af hendi til spítalabyggingar skv lögum um heilbrigðisþjónustu og samningi frá 1975. Borgin endurheimtir þær ef þarna á ekki að vera spítali. Þá stendur eftir hugmyndin um að selja Barnaspítalann, Kvennadeildina og Geðdeildina og breyta í hótel.“
Sigmundur Davíð sagði í gær að margar forsendur fyrir staðarvali spítalans við Hringbraut hefðu breyst á síðustu misserum, ekki síst fasteignamarkaðurinn, þar sem verð hafi rokið upp í nágrenni spítalans. „Það auðvitað breytir forsendum töluvert. Og menn ættu að minnsta kosti að skoða það, það er þess virði að reikna, þó ekki væri nema á servíettu hvort það gæti verið skynsamlegt í stöðunni núna að selja bara fasteignir Landspítalans við Hringbraut og lóðirnar og byggingaréttinn þarna í kring.“
Hann ræddi sérstaklega um áformin um að selja lóð Ríkisútvarpsins og jafnvel hús þess, „það hefur verið bent á að það gæti verið mjög hentug staðsetning fyrir Landspítala og um leið væri hægt að leysa úr vanda RÚV sem gæti t.d. farið í grennd við miðbæinn,“ sagði hann.
Mér sýnist margt benda til að hér hafi okkar spaugsama forsætisráðherra tekist að láta Eyjuna (og einhverja aðra fjölmið...Posted by Dagur B. Eggertsson on Thursday, April 2, 2015