Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að fréttir um framlag Sádí Arabíu til moskubyggingar í Reykjavík þarfnist skýringa. "Hafa þessir fjármunir verið þegnir, og ef svo er, fylgja þeim einhver skilyrði? Ég hef óskað eftir því að mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar afli upplýsinga um þessar fréttir, reynslu og fordæmi nágrannaþjóða í þessum efnum og önnur atriði sem máli geta skipt," segir Dagur í Facebook-stöðuuppfærslu um málið.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að Sádí Arabía ætli að leggja um eina milljón dala, 135 milljónir króna, í byggingu væntanlegrar mosku í Reykjavík. Þetta kemur fram í frétt á vef embættis forseta Íslands en Ólafur Ragnar Grímsson átti fund með nýjum sendiherra Sádí Arabíu hérlendis í dag.
Nýi sendiherrann, Ibrahim S.I. Alibrahim, afhenti forseta Íslands trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum í dag og flutti forsetanum samhliða sérstaka kveðju nýs konungs Sádí Arabíu, Salman bin Abdulaziz Al Saud.
Í frétt á vef embættis forseta Íslands segir ennfremur: „Rætt var um áhuga íslenskra aðila á að kanna jarðhita í Sádi Arabíu, einkum með tilliti til kælingar húsa. Fjallað var um þróun mála í Mið-Austurlöndum og vaxandi átök á svæðinu. Þá greindi sendiherrann frá því að Sádi Arabía styddi byggingu væntanlegrar mosku í Reykjavík, myndi leggja fram rúmlega eina milljón Bandaríkjadala til byggingar hennar og að hann hefði í gær skoðað lóðina þar sem moskan myndi rísa.“