Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti í dag að ákvörðun hafi verið tekin um að banna stórar rútur í miðborg Reykjavíkur. Frá þessu greinir borgarstjóri á Twitter og Instagram.
Á myndinni hér að ofan, sem Dagur birti í dag á Instagram, má sjá staðsetningu fyrirhugaðra sleppisvæða í jaðri miðborgarinnar þar sem ferðamenn geta stigið um borð og yfirgefið rútur sem eru lengri en átta metrar að lengd.
Í samtali við RÚV segir borgarstjóri að fyrir liggi samkomulag sem takmarki umferð rútubifreiða um miðborgina, og nú sé einungis beðið eftir því að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins staðfesti það.
„Við ætlum að takmarka umferð allra bíla sem eru meira en 8 metra langir. Það mun gilda um mest allt miðborgarsvæðið. Það er býsna góð samstaða milli okkar og lögreglunnar í þessu,“ segir Dagur í samtali við RÚV.
Aðspurður um hvenær aðgerða sé að vænta, vildi Dagur ekki nefna nákvæma dagsetningu en sagði að hafist yrði handa á næstunni. Þá benir hann á að borgin hafi gefið út fyrirmæli í haust um umferð rútubifreiða um miðborgina, sem greinilega hafi ekki verið nóg. Nú verði bannið skilgreint nákvæmlega og skiltum komið upp þar sem við á í miðborginni.