Reykjavíkurborg ætlar sér að kaupa fasteignir Nýju sendibílastöðvarinnar við Knarrarvog 2 til þess að tryggt verði að hægt verði að nýta lóðina undir fyrirhugaða legu Borgarlínu. Kaupverð sem samningar hafa náðst um nemur 460 milljónum króna og hefur hluthafafundur Nýju sendibílastöðvarinnar samþykkt sölu á eignunum fyrir sitt leyti.
Þessi uppkaup borgarinnar voru til umfjöllunar á fundi borgarráðs í gær og samþykkt af fjórum fulltrúum meirihlutans gegn atkvæðum þriggja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarráði. Málið verður því rætt frekar í borgarstjórn á næstunni og tekið þar til lokaafgreiðslu.
Verðmat fasteignasala á bilinu 330-345 milljónir
Kaupverðið sem borgin hefur náð samkomulagi um er sem áður segir 460 milljónir króna, en tveir fasteignasalar sem framkvæmdu verðmat á fasteignunum fyrir borgina komust að þeirri niðurstöðu að markaðsverð lóðarinnar væri öllu lægra, eða á bilinu 330-345 milljónir króna.
Samningateymi á vegum borgarinnar virðist þannig hafa þurft að teygja sig nokkuð langt yfir markaðsverðið til að fá Nýju sendibílastöðina til þess að samþykkja sölu á fasteignum sínum í Knarrarvogi.
Stefán Búason, stjórnarformaður og einn rúmlega hundrað hluthafa Nýju sendibílastöðvarinnar, segir við Kjarnann að mismikil ánægja hafi verið á meðal hluthafa með söluna, einhverjir séu ánægðir með þessa niðurstöðu en aðrir ekki.
Spurður út í kaupverðið segir hann ekki hægt að horfa bara á fermetraverðið sem borgin sé að greiða, þar sem Nýja sendibílastöðin fái ekki aðra lóð í Reykjavíkurborg undir sína starfsemi.
Því megi líta svo á að borgin sé að greiða hluthöfum félagsins „miskabætur“ umfram markaðsverð fasteignanna í þessum viðskiptum.
Í umsögn annars fasteignasalans sem verðmat eignina segir að lóðin hafi einstaka staðsetningu. Hún sé einstaklega stór og rúmgóð athafnalóð sem vart eigi sér hliðstæðu á höfuðborgarsvæðinu og sé mikils virði fyrir fyrirtækið sem þar er með starfsemi.
Bæði borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins gagnrýndu að greitt væri yfirverð fyrir lóðina, í bókunum á fundi borgarráði. Í bókun Sjálfstæðismanna sagði sömuleiðis að það skyti skökku við að borgin væri að kaupa þessa eign þar sem málefni Borgarlínunnar væru í sérstöku félagi, Betri samgöngum ohf.
„Fyrirliggjandi er verðmat tveggja aðila sem er langt fyrir neðan það kaupverð sem liggur fyrir fundinum. Hér er því verið að greiða yfirverð fyrir eign sem á að rífa undir borgarlínu. Rétt er að benda á að þessi „fjárfesting“ er ekki á fjárhagsáætlun borgarinnar,“ sagði í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks.
Í greinargerð eignaskrifstofu borgarinnar vegna kaupanna segir að gert verði ráð fyrir kaupunum innan gildandi fjárfestingaráætlunar.
Samningaviðræður við eiganda leikskólalóðar handan Sæbrautar
Til viðbótar við þessi áformuðu uppkaup borgarinnar vegna Borgarlínu í Knarrarvogi er Reykjavíkurborg einnig í viðræðum við lóðarhafa handan Sæbrautarinnar um land til þess að koma Borgarlínu fyrir.
Við Suðurlandsbraut 75 á Barnavinafélagið Sumargjöf lóð og fasteignir leikskólans Steinahlíðar, sem rekinn er af Reykjavíkurborg.
Þar er þó ekki stefnt á uppkaup, heldur hefur samningafólk borgarinnar verið í viðræðum við fulltrúa Sumargjafar um breytingar á lóðamörkum.
Kristín Hagalín Ólafsdóttir, stjórnarformaður Sumargjafar, útskýrir fyrir blaðamanni Kjarnans að endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir í þeim viðræðum, en að rætt hafi verið um að borgin taki til sín um 5.000 fermetra landbita af lóðinni og bæti Sumargjöf það upp með því að láta samsvarandi landskika norðan núverandi lóðar í staðinn.
Hún segir horft til þess að það land verði skipulagt sem grænt svæði fyrir börnin á leikskólanum og aðra borgarbúa. Ekki séu áform um uppbyggingu fasteigna á lóðinni af hálfu Sumargjafar, nema ef til vill eins leikskólahúsnæðis til viðbótar.
„Það eru hugmyndir um að byggja þarna upp virkilega skemmtilegt svæði fyrir borgarbúana og það er það sem okkur langar að gera,“ segir Kristín.