Borgarstjórn Reykjavíkur ætlar að fela forsætisnefnd að skoða aðrar aðferðir við skipun fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar. Þetta er gert í kjölfar umdeildrar skipunar Framsóknar og flugvallarvina á Gústaf Níelssyni sem varamanns í mannréttindaráð borgarinnar. Þá sátu fimm fulltrúar meirihluta borgarstjórnar hjá við skipun hans.
Tillagan var lögð fram af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins og var samþykkt samhljóða. Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins talaði fyrir tillögunni og sagði á fundi borgarstjórnar að það væri lýðræðislega óeðlilegt að gera skipun annarra flokka í nefndir og ráð pólitíska eins og formið bjóði upp á með að bjóða upp á hjásetu. Flokkarnir eigi að hafa umboð til að skipa þá sem þeir vilja og beri pólitíska ábyrgð á því.