Reykjavíkurborg mun leggja af verkefni sem ekki eru tekjuskapandi, draga úr aðkeyptri ráðgjöf, vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og sækja leiðréttingar í ríkissjóð vegna vanfjármögnunar á ýmsum málaflokkum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðamikilli aðgerðaáætlun í fjármálum, sem borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun, til þess að draga úr rekstrarhalla hjá borginni.
Rúmlega þriggja milljarða króna halli varð á rekstri A-hluta borgarsjóðs á fyrri hluta ársins, sem er 1,2 milljarði verri niðurstaða en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Borgin hefur nú samþykkt þessa aðgerðaáætlun í sex liðum sem er afrakstur vinnu borgarráðs undanfarið.
Samstaða var um aðgerðirnar, en meðal annars munu verða teknar upp viðræður við ríkið um að gistináttagjöld renni til sveitarfélaga og að þau fái hlutdeild í virðisaukaskatti af ferðaþjónustu, innflutningsgjöldum af bílaleigubílum og fjármagnstekjuskatti af leigutekjum. Þá ætlar borgin að taka upp gjaldskyldu í rútustæði.
Borgin ætlar að sækja leiðréttingar vegna þess sem hún kallar vanfjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks, hjúkrunarheimila og tónlistarskóla. Þá hyggst borgin fylgja sérstaklega eftir niðurstöðum sex og níu mánaða uppgjöra til að draga úr halla sem flyst á milli ára. Borgarstjóri á að leggja fram endurskoðaða áætlun um lóða- og eignasölu og beina því til allra sviða að leggja af eða hægja á verkefnum sem er ekki hægt að hagræða á móti eða eru ekki tekjuskapandi. Þá eiga allir sviðssjórar að gera grein fyrir aðgerðum sem komi í veg fyrir framúrkeyrslu úr fjárheimildum.
Borgarráð ætlar líka að leggja fram greinargerð um lífeyrisskuldbindingar og þróun þeirra í ljósi nýgerðra kjarasamninga, breytinga á lífaldri og stöðu Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga.
Borgin ætlar líka að funda áfram um frekari aðgerðir.
Mikið tap af rekstri A-hluta
Tap af rekstri A-hluta borgarinnar nam 3.038 milljóum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, en áætlanir gerðu ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 1.865 milljónir á tímabilinu. Til A- hluta tekst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Verri afkoma er eins og fyrr greinir rakin til lækgri tekna af sölu byggingarréttar og sölu fasteigna, sem var 552 milljónum króna undir áætlun, og hækkun launakostnaðar umfram áætlun um 403 milljónir króna.
Heildareignir samstæðu Reykjavíkurborgar, það eru A og B hlutar, námu í lok júní samtals 513.207 milljónum króna. Heildarskuldir ásamt skuldbindingum námu 282.812 milljónum króna og eigið fé var 220.395 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall er 42,9 prósent en var 41, prósent um síðustu áramót.
Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.