Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að láta fjármála- og áhættusvið Reykjavíkurborgar meta kosti og galla þess að selja Malbikunarstöðina Höfða, sem er að öllu leyti í eigu borgarinnar og með pólitískt skipaða stjórn yfir sér. Leitað verður til óháðra ráðgjafa vegna verkefnisins. Reykjavíkurborg hefur átt malbikunarstöðina í meira en 80 ár.
Samkvæmt málefnasamningi núverandi meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, sem samanstendur af Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Vinstri grænum átti að leggja Malbikunarstöðinni Höfða til nýja lóð á kjörtímabilinu og kanna í kjölfarið sölu á fyrirtækinu.
Malbikunarstöðin hefur haft afnot af stórri lóð við Sævarhöfða í Reykjavík á grundvelli óskráðs ótímabundins afnotasamnings við Reykjavíkurborg. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg sem send var út í dag segir að borgin og malbikunarstöðin hafi nú gert með sér „Samkomulag um brottflutning malbikunarstöðvarinnar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á nýju 20 þúsund manna hverfi á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog, þar sem gert er ráð fyrir blandaðri byggð með íbúðum og léttri þjónustustarfsemi.“ Höfði þarf að víkja af lóðinni fyrir lok þessa árs.
Fyrirtækið keypti þess í stað lóð við Álfhellu í Hafnarfirði og er flutningur hennar þangað þegar hafinn.
Með 91 prósent hlutdeild
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lengi verið mjög áfram um að malbikunarstöðin verði seld. Snemma árs 2017 lögðu fulltrúar flokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur til að ráðið samþykki áskorun til borgarráðs um að selja hana. Sá vilji hefur verið ítrekaður nokkrum sinnum síðan, síðast í fyrrahaust.
Athugun Viðskiptaráðs Íslands á útboðum áranna 2017 til 2020, sem gerð var opinber fyrr á þessu ári, sýndi svo að hlutdeild Höfða í malbikunarútboðum innan Reykjavíkur hafði aukist í 91 prósent. Aðeins einu sinni af ellefu vann annað fyrirtækið þess háttar útboð á vegum borgarinnar.
Á meðal raka sem sett hafa verið fram fyrir eignarhaldi Reykjavíkurborgar á Höfða eru þau að það tryggi samkeppni, en lengi vel var aðeins eitt annað fyrirtæki framleiddi malbik á suðvesturhorni landsins. Fyrirtækin eru nú orðin þrjú, fyrir utan Malbikunarstöðina Höfða.
Ýmsir hagaðilar hafa líka skorað á borgina að selja fyrirtækið í gegnum tíðina. Í lok apríl síðastliðinn skrifuðu til að mynda framkvæmdastjórar Samtaka iðnaðarins og Viðskiptaráðs Íslands saman grein í Morgunblaðið þar sem þeir hvöttu til þess.
Gera ráð fyrir arðgreiðslum 2025 og 2026
Malbikunarstöðin Höfði velti 1.429 milljónum króna á árinu 2020 sem er 450 milljónum krónum minna en fyrirtækið velti á árinu 2019. Í ársreikningi fyrirtækisins er tiltekið að áhrif af COVID-19 hafi þó ekki verið verulega mikil.
Alls tapaði Höfði 16,7 milljónum króna á árinu 2020 en hafði hagnast um 115,7 milljónir króna á árinu 2019. Inni í fyrirtækinu var umtalsvert óráðstafað eigið fé um síðustu áramót, eða alls 1.247 milljónir króna. Heildar eigið fé í lok árs 2020 var 1.490 milljónir króna en ljóst er að eitthvað hefur gengiuð á það í fyrra og í ár. Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna ársins 2022 mun eigin fé Höfða verða 1.079 milljónir króna í lok þess árs.
Í inngangi Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, í greinargerð sem fylgdi með frumvarpi um fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2022 og fimm ára áætlun hennar sem á að gilda til ársins 2026, var fjallað um málefni Malbikunarstöðvarinnar Höfða og greint frá flutningnum í Hafnarfjörð.
Þrátt fyrir að borgarstjóri hafi sagt þar að kostir og gallar þess að selja Malbikunarstöðina Höfða yrði skoðaðir var gert ráð fyrir því í áætluninni að fyrirtæki greiði borginni arð árin 2025 og 2026, samtals 70 milljónir króna.