Reykjavíkurborg hefur ákveðið að nýta forkaupsrétt sinn að fasteigninni Fossvogsbletti 2, sem stendur sunnan Fossvogsvegar fyrir botni Fossvogsdals, skammt frá Landspítalanum í Fossvogi. Reykjavíkurborg kaupir í viðskiptunum einbýlishús sem byggt var 1951 og geymsluhús sem er á lóðinni.
Borgin mun greiða 140 milljónir króna fyrir, en samþykkt var á fundi borgarráðs í síðustu viku að borgin myndi nýta forkaupsrétt sinn að eigninni. Um er að ræða erfðafestuland sem borgin leigði Hermanni Jónassyni fyrrverandi ráðherra út til ræktunar árið 1943.
Fasteignamat eignanna við Fossvogsblett 2 er 69,1 milljón króna á þessu ári en verður 90,7 milljónir á næsta ári.
Fjárfestar voru búnir að ná samkomulagi um kaup
Ísafold fjárfestingarfélag ehf., sem er meðal annars í eigu Ólafs D. Torfasonar eiganda Íslandshótela og Baldurs Þórs Vilhjálmssonar, var búið að komast að samkomulagi um kaup á fasteigninni á áðurnefndar 140 milljónir króna, en borgin kaus að stíga inn í viðskiptin eins og hún átti rétt á, samkvæmt leigusamningi.
Kaupsamningur Ísafoldar fjárfestingarfélags og eigenda fasteignanna var undirritaður 2. júní en borgin tilkynnti formlega þann 16. júní að hún ætlaði sér að stíga inn í fasteignaviðskiptin og kaupa sjálf, með fyrirvara um samþykkt borgarráðs. Það var svo samþykkt á fundi borgarráðs á fimmtudaginn síðasta að ganga inn í kaupin.
Fram kemur í greinargerð sem lögð var fyrir borgarráð að landið sé skógi vaxið í dag og að því hafi verið skipt upp í Fossvogsblett 2 og Fossvogsblett 2A. Heildarlandið sem um ræðir er 1,25 hektarar eða 12.500 fermetrar og er land hvors blettar jafn stórt, eða 6.250 fermetrar hvor spilda.
Svæðið í heild sinni er skilgreint undir íbúabyggð í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, en megin göngu- og hjólaleiðin um Fossvogsdalinn liggur í jaðri lóðarinnar við Fossvogsblett 2.